Fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar er traustur og rekstrarafgangur samstæðunnar var 301 milljónum kr. hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir eða sem nemur 655 milljónir kr. Handbært fé í árslok var 2.304 milljónir króna og jókst um 113 milljónir króna á árinu – en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Akraneskaupstað.
Ársreikningur Akraneskaupstaðar einkennist af ábyrgri fjármálastjórnun og traustum rekstri
Ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir árið 2019 var lagður fram í bæjarráði þriðjudaginn 14. apríl síðastliðinn og var vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn Akraness sem fór fram 28. apríl.
Helstu þættir ársreikningsins voru svohljóðandi:
- Rekstrarafgangur samstæðunnar var 655 milljónir króna eða 301 milljónir króna betri niðurstaða en áætlanir gerðu ráð fyrir.
- Skuldaviðmið lækkaði áfram og er nú 23%. Skuldir við lánastofnanir nú einungis 1.230 milljónir króna og hafa lækkað um 210 milljónir króna á milli ára.
- Heildartekjur sveitarfélagsins voru 8.044 milljónir króna og voru 4,9% eða samtals 378 milljónir króna yfir áætlun.
- Fjárfestingar sveitarfélagsins námu 981 milljónir króna á árinu 2019.
- Veltufé frá rekstri hjá samstæðu var 15,2% af heildartekjum eða 1.228 milljónir króna.
- Handbært fé í árslok var 2.304 milljónir króna og jókst um 113 milljónir króna á árinu.
Rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð um 655 milljónir króna sem er 301 milljónum króna betri afkoma en ráð var fyrir gert í fjárhagsáætlun ársins með viðaukum. Það skýrist fyrst og fremst af auknum útsvarstekjum og fasteignaskatti. Skatttekjur voru 282 milljónum króna hærri en á fyrra ári. Framlög Jöfnunarsjóðs lækkuðu um 22 m.kr. frá fyrra ári. Aðrar tekjur jukust um 140 milljónir króna á milli ára. Fjármagnsliðir hækka um 81 m.kr. sem skýrist að stærstum hluta af auknum arðgreiðslum af eignahlutum og hærri vaxtatekjum af innistæðum í banka.
Rekstur málaflokka var í takti við fjárhagsáætlun. Heildareignir í lok árs námu samtals 15.038 milljónum króna og jukust um 846 milljónir milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 6.759 milljónum króna og hækkuðu um 76 milljónir króna á milli ára. Langtímaskuldir lækkuðu um 210 milljónir króna, lífeyrisskuldbinding hækkaði um 49 milljónir króna og skammtímaskuldir hækkuðu um 237 milljónir króna. Rekstrarafgangur ársins var jákvæður um 657 milljónir króna fyrir A hluta og neikvæður um 2 milljónir króna fyrir B hluta.
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri kynnti helstu niðurstöður ársreikningsins í upphafi bæjarstjórnarfundar. Í ræðu hans kom eftirfarandi fram „Ársreikningur Akraneskaupstaðar sýnir ábyrga fjármálastjórn og trausta fjárhagsstöðu, þar sem virðing er borin fyrir skattfé bæjarbúa. Tap var 89,9 milljónir króna á árinu á málefnum fatlaðra og er uppsafnað tap 380 milljónir króna á málaflokknum frá því að hann færðist frá ríkinu árið 2011 og eru framlög frá Jöfnunarsjóði því langt frá því að standa undir þessum málaflokki. Akraneskaupstaður kynnti nýverið fyrstu aðgerðir til viðspyrnu til þess að svara kalli atvinnulífs og íbúa með því að vernda heimili, fyrirtæki og félagasamtök sem verða fyrir mestu skakkaföllum vegna Covid-19. Akraneskaupstaður er vel í stakk búinn til að takast á við efnahagslegt áfall. Gengið hefur vel að greiða niður langtímaskuldir og er skuldastaða Akraneskaupstaðar lág. Má þar benda á að skuldaviðmið er nú um 23% sem má vera að hámarki 150%. Akraneskaupstaður á nú ríflega 2 milljarða af handbæru fé og er í miklum fjárfestingum.“
Met ár í uppbyggingu og fjárfestingum
Meðal helstu framkvæmda á árinu voru voru 281 milljónir króna í fimleikahús, 67 milljónir króna í nýtt frístundahús Garðavelli við golfvöllinn, 43 milljónir króna vegna breytinga í Brekkubæjarskóla, 132 milljón króna vegna niðurrifs á Sementsreit, 169 milljónir króna í gatnagerð og gangstíga, 8 milljónir króna í Guðlaugu við Langasand, 6 milljónir króna í bátaskýli við Byggðasafnið í Görðum og 303 milljónir króna í þjónustumiðstöð aldraðra. Jafnframt fóru 50 milljónir króna í hreystigarð, salerni og sturtur og búningsaðstöðu við Langasand og 8 milljónir í kaup á lóð við Æðarodda.
Helstu rekstrartölur og lykiltölur A-hlutans
EBITDA framlegð eykst verulega milli ára og nemur 8,4% á árinu 2019 en nam 11,7% á árinu 2018. Veltufjárhlutfall er enn mjög sterkt og nemur 2,33 í árslok 2019 og er sveitarfélagið því vel í stakk búið til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur á næstu 12 mánuðum. Skuldahlutfall fer áfram lækkandi og er 89% í árslok 2019 en var 92% í árslok 2018. Eiginfjárhlutfall er í árslok 57% og hækkar um 2,0% frá árinu 2018. Veltufé frá rekstri er 16,8%.
Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga miðast meðal annars við að:
· Skuldaviðmið sveitarfélaga þ.e. að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum sveitarfélagsins. Skuldaviðmið samstæðu Akraneskaupstaðar í árslok 2019 er 23%.
- Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga tilgreina einnig að rekstrarjöfnuður á hverju þriggja ára tímabili sé jákvæður og er þessi rekstrarjöfnuður hjá Akraneskaupstað jákvæður sem nemur 1.721 milljónum króna.