Grásleppusjómenn á Akranesi ósáttir stöðvun veiða


Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði s.l. fimmtudag reglugerð þess efnis að grásleppuveiðar verði stöðvaðar frá og með deginum í dag – 3. maí.

Grásleppusjómenn á Akranesi eru langt frá því að vera sáttir við ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins að stöðva veiðarnar með svona skömmum fyrirvara.

Fréttastofa Stöðvar 2 var á Akranesi í gær og þar var rætt við þrjá sjómenn sem eru langt frá því að vera sáttir við stöðuna.

Mikil veiði hefur verið fyrir norðan land þar sem að grásleppuveiðar hefjast að öllu jöfnu mun fyrr en í öðrum landshlutm. Heildaraflinn fyrir veiðitímabilið er 4.600 tonn fyrir alla grásleppubáta landsins.

„Við erum ekki að veiða nema kannski tvö, þrjú hundruð tonn hérna á Akranesi. Þetta eru 4.600 tonn og það er er ekkert eftir fyrir okkur. Þetta lítur bara illa út,“ segir Gísli Geirsson m.a. í viðtalinu hér fyrir neðan.