Bæjarráð Akraness stendur við bakið á grásleppusjómönnum á Akranesi og félögum í smábátafélaginu Sæljóni á Akranesi.
Í bókun sem samþykkt var á fundi bæjarráðs í gær er tekið undir mótmæli félagsins varðandi fordæmalausa ákvörðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þess efnis að stöðva grásleppuveiðar með skömmum fyrirvara.
Forsaga málsins er sú að Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gaf reglugerð þann 30. apríl síðastliðinn um bann við grásleppuveiðum frá og með miðnætti aðfararnótt sunnudagsins 3. maí.
Mikil veiði fyrir norðan land gerði það að verkum að sameiginlegur kvóti, um 4600 tonn, var nánast búinn, áður en veiðar gátu hafist fyrir alvöru í mörgum landshlutum og þar á meðal við Akranes,
Bæjarráð bókaði eftirfarandi:
„Bæjarráð Akraness tekur undir með félagsmönnum í smábátafélaginu Sæljóni á Akranesi og mótmælir fordæmalausri ákvörðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að stöðva grásleppuveiðar með alltof skömmum fyrirvara.
Bæjarráð Akraness bendir á að misvægi er á milli landshluta hvað varðar grásleppuveiðar og gerir þá kröfu að ráðherra endurskoði ákvörðun sína þannig að jafnræðis verði gætt.„
Áskorunin hefur verið send sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ásamt þingmönnum norðvesturkjördæmis.