B59 Hotel mótið sem hefst á föstudaginn á Garðavelli á Akranesi verður gríðarlega sterkt og ljóst að allir bestu kylfingar landsins verða á meðal keppenda. Golfklúbburinn Leynir sér um framkvæmd mótsins og er mótið fyrsta stigamót tímabilsins á mótaröð GSÍ.
Mótið er án efa sterkasta golfmótið sem fram hefur farið á Akranesi frá því að Íslandsmótið í golfi fór fram á Garðavelli árið 2015.
Keppendur verða alls 125, þar af 98 í karlaflokki og 27 í kvennaflokki.
Alls eru keppendur frá 17 mismunandi klúbbum, þar af eru þrír keppendur frá Leyni á Akranesi. Valdís Þóra Jónsdóttir fer þar fremst í flokki heimamanna. Björn Viktor Viktorsson og Alex Hinrik Haraldsson eru einnig á meðal keppenda í karlaflokki.
Flestir keppendur eru úr GR eða 35 alls og rúmlega þriðjungur keppenda í kvennaflokki eru frá GR.
Keppendur í kvennaflokki koma úr 8 mismunandi klúbbum.
Skiptinguna má sjá hér fyrir neðan.
Klúbbur | Heildarfjöldi | Karlar | Konur |
Golfklúbbur Akureyrar | 9 | 7 | 2 |
Golfklúbbur Álftaness | 1 | 1 | |
Golfklúbbur Borgarness | 1 | 1 | |
Golfklúbbur Fljótsdalshéraðs | 1 | 1 | |
Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar | 19 | 14 | 5 |
Golfklúbbur Mosfellsbæjar | 21 | 17 | 4 |
Golfklúbbur Öndverðarness | 1 | 1 | |
Golfklúbbur Reykjavíkur | 35 | 25 | 10 |
Golfklúbbur Selfoss | 4 | 3 | 1 |
Golfklúbbur Suðurnesja | 6 | 6 | |
Golfklúbbur Vestmannaeyja | 3 | 3 | |
Golfklúbur Þorlákshafnar | 1 | 1 | |
Golfklúbburinn Keilir | 15 | 12 | 3 |
Golfklúbburinn Leynir | 3 | 2 | 1 |
Golfklúbburinn Oddur | 2 | 1 | 1 |
Golfklúbbur Setbergs | 1 | 1 | |
Nesklúbburinn | 2 | 2 | |
Samtals | 125 | 98 | 27 |
Leiknar verða 54 holur eða þrír keppnishringir á þremur keppnisdögum.
Skor og rástímar mótsins eru hér.
Eins og áður segir verða bestu kylfingar landsins á meðal keppenda. Atvinnukylfingar sem og áhugakylfingar.
Á meðal þeirra sem hafa skráð sig eru atvinnukylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK), Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR) og Valdís Þóra Jónsdóttir.
Í karlaflokki eru einnig sterkustu leikmenn landsins skráðir til leiks. Má þar nefna atvinnukylfinga á borð við Andra Þór Björnsson (GR), Guðmund Ágúst Kristjánsson (GR), Harald Franklín Magnús (GR), Bjarka Pétursson (GKB), Axel Bóasson (GK), Rúnar Arnósson (GK), Ólaf Björn Loftsson (GKG) og fleiri.
Leikfyrirkomulag
Höggleikur í flokki karla og kvenna, 54 holur leiknar, 18 holur á föstudegi, 18 holur á laugardegi og 18 holur á sunnudegi.