Dino Hodzic fór á kostum hjá Kára – varði tvær vítaspyrnur


Markvörðurinn Dino Hodzic fór á kostum í liði Kára um liðna helgi í 1-0 sigri liðsins gegn ÍR í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu karla.

Leikurinn fór fram í Akraneshöllinni, laugardaginn 11. júlí, en fyrir leikinn hafði Kári ekki landað sigri á Íslandsmótinu.

Eins og áður segir fór hinn hávaxni Dino Hodzic á kostum þegar mest á reyndi. Andri Júlíusson kom Kára yfir með marki úr vítaspyrnu strax á 2. mínútu.

ÍR -ingar fengu dæmda vítaspyrnu í fyrri hálfleik sem Viktor Örn Guðmundsson tók fyrir ÍR. Dino Hodzic gerði sér lítið fyrir og varði. Í síðari hálfleik fékk ÍR aðra vítaspyrnu og á ný fór Viktor Örn á vítapunktinn. Dino Hodzic sá aftur við Viktori Erni og varði sitt annað víti í leiknum.

Hér má sjá helstu atvikin úr leiknum í samantekt frá ÍATV.

Ólafur Karel Eiríksson leikmaður Kára fékk að líta rauða spjaldið á 75. mínútu og verður í leikbanni í næsta leik.

Með sigrinum fór Kári upp í 10. sæti deildarinnar. Liðið er með 5 stig eftir 5 umferðir en liðið hefur unnið einn leik, gert tvö jafntefli og tapað tveimur leikjum.