Fullt er í skimun Íslenskrar erfðagreiningar sem fram fer á Akranesi í dag.
Í gær höfðu 448 bókanir átt sér stað í skimunina vegna Covid-19 en Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness gerir ráð fyrir að um 500 skimanir fari fram í dag á Akranesi.
Í færslu á fésbókarsíðu sinni þakkar Sævar Freyr Skagamönnum fyrir góð viðbrögð við boðun í skimun.
Um slembiúrtak er að ræða. Sjö einstaklingar greindust nýverið með Covid-19 veiruna á Akranesi. Skimunin er framkvæmd af Íslenskri erfðagreiningu og er gerð til að kanna hve útbreidd hópsýkingin er sem kom upp á Akranesi í síðustu viku.