Mikið í húfi hjá landsliði Íslands gegn Svíum – leikurinn verður í opinni dagskrá á Stöð 2 sport


Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu fær gríðarlega erfitt verkefni í dag á Laugardalsvelli í undankeppni EM.

Mótherjar Íslands eru Svíar en bæði liðin eru með 12 stig af 12 mögulegum eftir fjórar umferðir í riðlinu.-m.

Skagamaðurinn Jón Þór Hauksson er þjálfari liðsins og Hallbera Guðný Gísladóttir, fyrrum leikmaður ÍA, er eins og áður í lykilhlutverki í landsliði Íslands.

Svíar enduðu í þriðja sæti á síðasta Heimsmeistaramóti og liðið hefur lítið breyst frá þeim tíma.

Í undankeppni Evrópumóts kvennalandsliða kemst aðeins eitt lið beint upp úr riðlinum inn í lokakeppnina. Það er því mikið í húfi fyrir bæði lið í dag þegar liðin mætast kl. 18.00 á Laugardalsvellinum.

Leikurinn verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 sport.

Þrjú bestu liðin í öðru sæti undanriðlanna fá einnig sæti á EM sem fram fer á Englandi. Ísland þarf því að ná stigum gegn Svíum. Ísland hefur sigrað Svía tvívegis í síðustu fimmtán viðureignum. Árið 2014 sigraði Ísland lið Svía í leik um bronsverðlaun í Algarvebikarnum í Portúgal.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði Íslands, jafnar landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur í dag með A-landsliði kvenna. Sara Björk leikur sinn 133. landsleik í dag.