Úthlutun úr miðlægum veikindapotti hækkar umtalsvert hjá Akraneskaupstað


Umtalsverð aukning var á umsóknum stofnana Akraneskaupstaðar í miðlægan veikindapott bæjarfélagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2020.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 10. september úthlutun úr miðlægum veikindapotti vegna kostnaðar stofnana Akraneskaupstaðar við afleysingar sem tilkomin er vegna veikindaforfalla starfsmanna á árinu 2020.

Alls verður úthlutað 52 milljónum kr. en í áætlun ársins var gert ráð fyrir 42 milljónum kr. til úthlutunar. Mismuninum verður mætt með lækkun á áætluðum rekstrarafgangi.

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun vegna málsins:

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill í ljósi þeirra gagna sem liggja fyrir fundinum að regluverk um úthlutun úr langtímaveikindapotti starfsmanna Akraneskaupstaðar verði endurskoðað.