Kvennalið ÍA tapaði í gær gegn liði Aftureldingar í Lengjudeildinni í knattspyrnu sem er næst efsta deild.
Leikurinn endaði með 3-1 sigri Aftureldingar en Erla Karitas Jóhannesdóttir skoraði mark ÍA.
ÍA er í þriðja neðsta sæti deildarinnar en liðið er með 12 stig eftir 15 umferðir. Á tímabilinu hefur liðið sigrað í tveimur leikjum, gert 6 jafntefli og tapað alls 7 leikjum.
Fjölnir og Völsungur eru fyrir neðan ÍA í töflunni þegar þrjár umferðir eru eftir. ÍA á eftir að leika gegn Fjölni og með sigri í þeim leik gulltryggir ÍA sæti sitt í Lengjudeildinni. Sá leikur fer fram um næstu helgi á Akranesi. Liðin skildu jöfn, 1-1, þegar liðin mættust í fyrri umferðinni í lok júlí.
ÍA mætir síðan liði Tindastóls í næst síðustu umferðinni en Tindastóll tryggði sér í gær sæti í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins. Lokaleikur ÍA er gegn Aftureldingu á útivelli þann 9. október.