Skiptar skoðanir eru í bæjarráði Akraness um hvernig staðið verði að uppbyggingu á framtíðarhúsnæði Fjöliðjunnar við Dalbraut.
Eins og áður hefur komið fram skemmdist húsið mikið þegar eldur kom upp í mannvirkinu í maí 2019. Starfshópur sem skipaður var um framtíðarhúsnæði Fjöliðjunnar kynnti tillögur sínar á síðasta fundi bæjarráðs.
Meirihluti bæjarráðs samþykkti að farið verði eftir sviðsmynd 1 í lokaskýrslu starfshópsins. Fulltrúi Sjálfstæðisfloksins greiddi atkvæði gegn tillögunni.
Í bókun Sjálfstæðisflokksins frá fundinum kemur fram besta lausnin væri að rífa núverandi hús og reisa þar nýja byggingu sem taki m.a. mið að skipulagi Dalbrautarreitsins. Með þeim hætti væri einnig óvissu um myglu í núverandi húsi eytt.
Eftirfarandi bókun var lögð fram af fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Starfshópur skipaður embættismönnum Akraneskaupstaðar og fulltrúum notenda hefur tekið saman skýrslu sem dregur fram ólíkar sviðsmyndir um hvernig Akraneskaupstaður getur mætt þörfum Fjöliðjunnar í aðstöðu og húsnæðismálum til framtíðar.
Fulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra í bæjarráði standa við fyrri ákvörðun sína um að samþykkja þá tillögu sem gerir ráð fyrir að núverandi húsnæði verði endurbyggt og skeytt við það viðbyggingu sem byggir á 13 ára gamalli teikningu. Þá tekur sú ákvörðun ekki mið af þeim miklu breytingum sem hafa átt sér stað á á Dalbrautarreit síðustu ár.
Fyrir bruna Fjöliðjunnar fannst mygla í húsnæðinu sem eins og ótal mörg dæmi sanna getur skapað verulega óvissu og umtalsverðan viðbótarkostnað til framtíðar. Samkvæmt skýrslu starfshópsins er nýbygging dýrari valkostur en á móti kemur hærra mótframlag ríkisins til framkvæmdanna, sem Akraneskaupstaður ætti að íhuga betur.
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins getur ekki stutt þessa afgreiðslu meirihlutans og telur skynsamlegra að rífa núverandi húsnæði og reisa þar byggingu sem tekur m.a. mið af nýju skipulagi Dalbrautarreitsins og þróun hans til framtíðar. Auk þess verður óvissu um mygluvanda í eldri byggingu eytt.
Það liggur í augum uppi að meirihlutinn hyggst fara þessa leið út frá þeim forsendum að ákvörðun hefur dregist úr hófi og hægt verður að hefjast handa eftir afgreiðslu þessa máls. Þar lætur meirihlutinn að mati bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins skammtímasjónarmið ráða för og virðist skorta áræðni til að finna viðunandi lausnir á þeim vanda sem uppi er. Hér virðist því miður krónunni kastað fyrir aurinn og verður fróðlegt að sjá hver endanlegar kostnaður verður þegar upp er staðið vegna þessarar ákvörðunar fulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra.
Það er von bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að Fjöliðjan vinnu- og hæfingastaður fái starfsstöð sem stenst allar nútímakröfur slíkrar starfsemi og mæti þörfum starfsmanna og væntingum skjólstæðinga til lengri framtíðar.
Rakel Óskarsdóttir (sign)
Fulltrúar Samfylkingar og Framsóknar – frjálsra lögðu fram eftirfarandi bókun.
Undirritaðir, fulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra, þakka starfshópi um uppbyggingu Fjöliðjunnar fyrir góða og faglega vinnu sem birtist í vandaðri skýrslu þar sem skýrir valkostir eru dregnir upp
Það er mat starfshópsins að endurbygging núverandi húsnæðis og viðbygging samkvæmt fyrirliggjandi teikningu frá árinu 2007 sé góður kostur til að tryggja starfsemi Fjöliðjunnar fyrsta flokks húsnæði fyrir starfsemi hennar til framtíðar. Þetta álit starfshópsins leggjum við til grundvallar þeirri ákvörðun okkar að þessi leið verði farin við endurbyggingu húsnæðisins.
Nú liggur fyrir að starfsemi N1 muni í nánustu framtíð hverfa af aðliggjandi lóðum í nágrenni Fjöliðjunnar og fyrir bæjarstjórn liggur það verkefni að skipuleggja þetta svæði upp á nýtt. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að hefja nú þegar endurbyggingu húsnæðisins við Dalbraut 10 og halda jafnframt áfram með frekari hönnun aðliggjandi svæða þannig að þróun þessarar og tengdrar starfsemi haldist í hendur við frekari þróun á skipulagi reitsins.
Þessi ákvörðun er ekki tekin af fljótfærni eða í tímaskorti, heldur að vandlega yfirveguðu ráði eftir vandaða vinnu starfshópsins. Hafi ákvörðun dregist úr hófi, eins og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur, þá ber meirihluti bæjarstjórnar ekki meiri ábyrgð á þeim töfum en minnihlutinn. Þá skal því haldið til haga að í uppistandandi byggingum liggja verðmæti og því væri það sóun á verðmætum að rífa núverandi hús og farga því, þegar hægt er að endurbyggja það með myndarlegum hætti.
Við teljum að með þessari ákvörðun fái Fjöliðjan, vinnu- og hæfingarstaður, gott og myndarlegt húsnæði undir starfsemi sína sem mæti öllum kröfum sem til slíkra starfsstöðva eru gerðar.
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Valgarður L. Jónsson (sign)