Sindri Leví Ingason og Amelija Prizginaite hafa á undanförnum misserum unnið að skemmtilegri hugmynd sem nú er að að verða að veruleika. Sindri og Amelija eru bæði frá Akranesi en mikil hugmynda – og undirbúningsvinna liggur að baki í fjölskylduverkefninu sem er spil sem heitir Reckless Sloths.
„Þetta spil hefur verið í vinnslu frá því í maí í fyrra. Niðurstaðan hjá okkur var að láta það snúast um að bjarga letidýrum frá allskonar fáránlegum hættum. Þar má taka sem dæmi að dýrið er „kramið af núðlum“ eða algerlega umkringt af maís,“ segir Sindri Leví við skagafrettir.is.
Móðir Sindra Levís, Sylvía Dröfn Björgvinsdóttir, á stóran þátt í hugmyndavinnunni.
„Hún mamma er mikil listakona og hún var alveg til í að aðstoða okkur þegar við ræddum þessa hugmynd við hana. Mamma á því heiðurinn af öllum myndunum sem eru á spjöldunum í spilinu – hún gerði yfir 130 myndir,“ segir Sindri Leví.
Sindri Leví og Amelija ákváðu að fara af stað með hópfjármögnun á kickstarter.com til þess að koma verkefninu úr vör.
„Við höfum unnið að þessu verkefni nánast stanslaust í 17 mánuði. Við erum tilbúin að fara með þetta á kickstarter.com.
Við höfum rannsakað mikið hvernig best er að koma slíku spili á markað. Það hefur gengið virkilega vel. Nú þegar eru tæplega 2000 manns víðsvegar úr veröldinni að fylgjast með gangi mála á fésbókarsíðu Reckless Sloths og þau elska spilið.
Það hefur vakið athygli hversu margir eru að fylgjast með fésbókarsíðunni og aðrir spilahöfundar hafa sent skilaboð og spurt hvernig okkur hefur tekist að fá svona stóran hóp aðdáenda nú þegar. Við erum vongóð um að vekrefninu verðið vel tekið strax frá upphafi í hópfjármögnuninni sem fór af stað þriðjudaginn 27. október,“ segir Sindri Leví að lokum.
Þess má geta að viðtökurnar á kickstarter.com fóru mjög vel af stað og tæplega 2 milljónir kr. hafa nú þegar safnast í þetta verkefni frá tæplega 300 aðilum.
Upplýsingar um spilið: