Gatnagerðargjöld verða 25% hærri á þeim byggingum sem reistar verða í framtíðinni á Sementsreitnum svokallaða.
Tillaga þess efnis var samþykkt á fundi bæjarstjórnar sem fram fór í gær, 24. nóvember.
Akraneskaupstaður hefur á undanförnum misserum lagt töluverða fjármuni í það verkefni að rífa byggingar sem áður tilheyrðu Sementsverksmiðju Ríkisins.
Gjaldflokkurinn um einbýlishús er undanskilinn í þessari hækkun.
Gatnagerðargjald Akraneskaupstaðar er tvíþætt.
Annars vegar er það vegna nýrra lóða og hins vegar vegna stækkunar á húsnæði á þegar byggðum lóðum og/eða lóða sem ekki eru í eigu Akraneskaupstaðar.
Stofn til álagningar gatnagerðargjaldsins er fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð.
Gatnagerðargjald er ákveðið hlutfall byggingarkostnaðar pr. fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Ísland. Í október 2020 var þessi viðmiðunar tala kr. 231.963.
Gatnagerðargjald er mismunandi eftir húsgerðum og eru þau hæst í einbýlishúsum eða sem nemur rétt tæplega 32 þúsund kr. fyrir hvern fermetra.
Á Akranesi eru gatnargerðargjöldin eftirfarandi:
Einbýlishús 13,65% kr. 31.663 pr. m² húss.
Rað-, par-, tvíbýlis-, keðjuhús 8,80% kr. 20.413 pr. m² húss
og fjölbýlishús með 6 íbúðir eða færri.
Fjölbýlishús (fleiri en 6. íbúðir) 7,59% kr. 17.606 pr. m² húss.
Atvinnuhúsnæði 7,31% kr. 16.956 pr. m² húss.
Gripahús o.þ.h. 2,76% kr. 6.402 pr. m² húss.