Kristín Þórhallsdóttir er Íþróttamaður Akraness 2020. Þetta er í fyrsta sinn sem hún fær þessa nafnbót. Kristín náði frábærum árangri í klassískum kraftlyftingum á s.l. ári. Þar setti hún m.a. 17 Íslandsmet og sjö þessara meta standa enn í dag.
Kristín skrifaði jafnframt nýjan kafla í kjörinu en aldrei áður hefur íþróttamaður úr röðum kraftlyftinga hlotið þessa nafnbót.
Kristín hefur eins og áður segir náð frábærum árangri á undaförnum misserum en hún hóf að æfa kraftlyftingar í upphafi ársins 2019. Hún er í dag efst á styrkleikalista Evrópu i klassískum kraftlyftingum í -84kg flokki kvenna.
Jakob Svavar Sigurðsson, hestaíþróttamaður varð annar í kjörinu og fimleikakonan Guðrún julianne Unnarsdóttir varð þriðja.
Kjörinu var lýst í kvöld í beinni útsendingu á ÍATV. Þetta er í 47. sinn sem Íþróttamaður Akraness er kjörinn.
Í klassískum kraftlyftingum er rauði þráðurinn sá að keppt er án búnaðar. Ekki er leyfilegt að nota t.d. hnéhlífar, þrönga lyftingagalla eða lyftingabelti. Keppni í klassískum lyftingum hófst hér á Íslandi árið 2014 þegar byrjað var að skrá Íslandsmet í þessari grein kraftlyftinga.
Kristín sagði í viðtali við Örn Arnarson á ÍATV að hún væri í raun nýbyrjuð í kraftlyftingum en það er rúmt ár frá því hún hóf að æfa þessa íþrótt fyrir alvöru.
„Ég átti bara nokkuð gott ár. Ég byrjaði árið á að ná lágmarkinu fyrir Heimsmeistaramótið og Evrópumótið. Það stefndi í gott keppnisár sem rann út í sandinn vegna heimsfaraldursins. Á Íslandsmótinu í lok ársins náði ég þeim markmiðum sem ég hafði sett mér í upphafi ársins,“ sagði Kristín og bætti því við að Covid-19 ástandið hefði sett strik í reikninginn varðandi æfingar á árinu.
„Það varð úr að ég kom mér upp aðstöðu í hlöðunni heima - en ég bý í sveit. Kraftlyftingafélag Akraness kom mér til aðstoðar og lánaði mér búnað til að æfa. Ég hef fengið tækifæri til að æfa í Íþróttahúsinu við Vesturgötu tvisvar í viku með liðsfélögum mínum.“
Kristín er Borgfirðingur, og ólst upp á Laugarlandi í Stafholtstungum. Hún er með góðan grunn úr frjálsíþróttum sem hún stundaði af krafti í 15 ár áður en hún fór í nám í dýralækningum í Danmörku.
„Ég kom hingað á svæðið aftur árið 2016. Síðan eignaðist ég tvö börn með stuttu millibili, 2016 og 2018. Í kjölfarið fór ég að skoða hvaða íþróttir ég gæti farið að stunda sem keppnisíþrótt. Ég prófaði Crossfit og var að hugsa um að fara í þríþraut eða eitthvað slíkt. Það var eiginlega fyrir tilviljun að ég prófaði klassískar kraftlyftingar og eftir það var ekki aftur snúið. Það kom mér á óvart hversu mikið erindi ég átti í þessa íþrótt. Nú hef ég náð lágmörkum fyrir stórmótin á þessu ári. Ég hef nýtt tímann til að byggja mig vel upp og styrkja mig. Stefnan er sett hátt fyrir árið 2021,“ sagði Kristín Þórhallsdóttir Íþrótttamaður Akraness 2020.
Íþróttamenn Akraness frá upphafi:
2020: Kristín Þórhallsdóttir, (1) kraftlyftingar (1).
2019: Jakob Svavar Sigurðsson, (2) hestamennska (2).
2018: Valdís Þóra Jónsdóttir (7) golf (11).
2017: Valdís Þóra Jónsdóttir, (6) golf (10).
2016: Valdís Þóra Jónsdóttir, (5) golf (9).
2015: Ágúst Júlíusson, (2) sund (21)
2014: Ágúst Júlíusson, (1) sund (20).
2013: Jakob Svavar Sigurðsson, (1) hestamennska (1).
2012: Inga Elín Cryer, (2) sund (19).
2011: Inga Elín Cryer, (1) sund (18).
2010: Valdís Þóra Jónsdóttir, (4) golf (8).
2009: Valdís Þóra Jónsdóttir, (3)golf (7).
2008: Valdís Þóra Jónsdóttir, (2) golf (6).
2007: Valdís Þóra Jónsdóttir, (1) golf (5).
2006: Eydís Líndal Finnbogadóttir, (1) karate.
2005: Pálmi Haraldsson, (1) knattspyrna (10).
2004: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (6) sund (17).
2003: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (5) sund (16).
2002: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (4) sund (15).
2001: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (3) sund (14).
2000: Birgir Leifur Hafþórsson, (3) golf (4).
1999: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (2) sund (13).
1998: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (1) sund (12).
1997: Þórður Emil Ólafsson, (1) golf (3).
1996: Birgir Leifur Hafþórsson, (2) golf (2).
1995: Sigurður Jónsson, (2) knattspyrna (9).
1994: Sigursteinn Gíslason, (1) knattspyrna (8).
1993: Sigurður Jónsson, (1) knattspyrna (7).
1992: Birgir Leifur Hafþórsson, (1) golf (1).
1991: Ragnheiður Runólfsdóttir, (6) sund (11),
*(Íþróttamaður ársins á Íslandi).
1990: Ragnheiður Runólfsdóttir, (5) sund (10).
1989: Ragnheiður Runólfsdóttir, (4) sund (9).
1988: Ragnheiður Runólfsdóttir, (3) sund (8).
1987: Ólafur Þórðarson, (1) knattspyrna (6).
1986: Ragnheiður Runólfsdóttir, (2) sund (7).
1985: Ragnheiður Runólfsdóttir, (1) sund (6).
1984: Bjarni Sigurðsson, (1) knattspyrna (5).
1983: Sigurður Lárusson, (1) knattspyrna (4).
1982: Ingi Þór Jónsson, (2) sund (5).
1981: Ingólfur Gissurarson, (2) sund (4).
1980: Ingi Þór Jónsson, (1) sund (3).
1979: Ingólfur Gissurarson, (1) sund (2).
1978: Karl Þórðarson, (1) knattspyrna (3).
1977: Jóhannes Guðjónsson, (1) badminton (1) / knattspyrna (2).
1972: Guðjón Guðmundsson, (1) sund (1), (Íþróttamaður ársins á Íslandi).
1965: Ríkharður Jónsson, (1) knattspyrna (1).