Mikið tjón varð hjá mörgum íbúum á Akranesi nýverið þegar töluvert magn af sementi fauk yfir hús, bifreiðar og aðrar eignir.
Atburðurinn átti sér stað þann 5. janúar s.l. þegar sementi var dælt úr flutningaskipi sem var í Akraneshöfn.
Á athafnasvæði Sementsverksmiðjunnar eru fjórir tankar þar sem sementið er geymt. Samtals geta þessir tankar tekið á móti 16.000 tonnum af sementi. Fjögur þúsund tonn eru í hverjum tanki.
Þegar tjónið átti sér stað yfirfylltist einn af þessum tönkum og er talið að allt að tvö tonn af sementi hafi fokið yfir stórt svæði í næsta nágrenni við sementstankana.
Frá því að óhappið átti sér stað hafa verktakar unnið að því að þrífa svæðið og er ljóst að eignartjón er töluvert.
Sementsverksmiðjan og Akraneskaupstaður gerðu árið 2013 samning sem tryggir að verksmiðjan geti haft þessa fjóra sementstanka til umráða allt fram til ársins 2028.
Um var að ræða samning til 15 ára. Að þeim tíma liðnum fær Akraneskaupstaður sementstankana afhenta og gert var ráð fyrir að starfssemi Sementsverksmiðjunnar yrði hætt árið 2028.
Það er því ljóst að sement verður geymt í þessum fjórum tönkum næstu sjö árin eða fram til ársins 2028.