ÍA og knattspyrnan er eitt verðmætasta vörumerki Akraness – Eggert er nýr formaður KFÍA

„Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni með góðum hópi af fólki sem situr með mér í stjórn félagsins,“ segir Eggert Hjelm Herbertsson nýkjörinn formaður Knattspyrnufélags ÍA. Hann tekur við af Magnúsi Guðmundssyni sem gaf ekki kost á sér í embættið á ný. 

Eggert hefur í gegnum tíðina verið dyggur stuðningsmaður ÍA og komið að ýmsum verkefnum fyrir félagið. Hann segir að mörg áhugaverð en jafnframt krefjandi verkefni bíði nýrrar stjórnar sem mun koma saman á allra næstu dögum. Eggert er með mörg járn í eldinum en hann er í eigandahóp Ritari.is, og StayWest – samhliða því að vera framkvæmdastjóri Tölvuþjónustunnar á Akranesi. 

„Ég viðurkenni það fúslega að ég hef mjög gaman að lesa í gegnum ársreiknina KFÍA og ýmis gögn sem tengjast rekstrinum. Það eru ýmis tækifæri fyrir okkur sem við þurfum að nýta.Rekstur Knattspyrnufélags ÍA gekk vonum framar á síðasta ári. Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri félagsins, stýrði daglegum rekstri félagsins af miklum myndarskap. Reynslan og þekkingin sem hann býr yfir kom að góðum notum í þeim flóknu aðstæðum sem hafa verið á Íslandi undanfarið ár. Allir þeir sem koma að félaginu eiga hrós skilið fyrir útkomuna – það lögðust allir á eitt að koma félaginu til aðstoðar þegar mest á reyndi.“ 

Eggert er frá Ólafsvík þar sem hann lék með liði Víkings um tíma. Hann segir að ferill hans sem leikmaður hafi ekki verið langur en áhugi hans á félagsmálum hefur alltaf verið til staðar. 

„Eg tók að mér formennsku hjá Knattspyrnudeild Víkings þegar ég var 25 ára gamall. Ég er aðeins reyndari og þroskaðri núna en þá,“ segir Eggert í léttum tón. 

Stöðugleiki er mikilvægur

Formaðurinn er á þeirri skoðun að stöðugleiki í fjármálum sé eitt það allra mikilvægasta til þess að félagið nái að blómstra í harðri samkeppni við önnur lið. 

„Að mínu mati er ÍA og þá sérstaklega knattspyrnan eitt stærsta og verðmætasta vörumerki Akraness. Það er því mikil ábyrgð sem fylgir því að taka að sér þetta embætti. Það er mikil þekking til staðar hjá fjölmörgum einstaklingum sem hafa unnið frábært starf fyrir félagið í gegnum tíðina. Ég mun leita til þeirra – og fá góð ráð úr þeirra reynslubanka. Stjórn félagsins mun á næstu vikum forgangsraða verkefnum í samvinnu við starfsmenn félagsins. Það eru mörg járn í eldinum hjá svona stóru félaginu og að  mörgu að hyggja. Við erum með öflugt barna – og unglingastarf samhliða meistaraflokkum í karla og kvennaflokki. Ég ætla að leggja mitt að mörkum til að félagið okkar nái enn lengra á næstu árum,“ segir Eggert. 

Eins og áður segir voru töluverðar breytingar á stjórn félagsins. 

Magnús Guðmundsson, formaður, Pálmi Haraldsson, gjaldkeri og Áslaug Ákadóttir gáfu ekki kost á sér til endurkjörs. Nýír í stjórn eru því Eggert Herbertsson (formaður), Brandur Sigurjónsson og  Lára Dóra Valdimarsdóttir.

Úr barna- og unglingaráði gekk Rannveig Guðjónsdóttir en stað hennar var kosinn Ívar Orri Kristjánsson.

Stjórn KFÍA er þannig skipuð:

Formaður:
Eggert Herbertsson

Stjórn:

Jónína Víglundsdóttir
Hjálmur Dór Hjálmsson
Brandur Sigurjónsson 
Lára Dóra Valdimarsdóttir
Heimir Fannar Gunnlaugsson
Ellert Jón Björnsso
Ragnar Þór Gunnarsson
Linda Dagmar Hallfreðsdóttir form. Barna- og unglingaráðs.

Barna- og unglingaráð:
Jófríður María Guðlaugsdóttir
Sædís Alexía Sigmundsdóttir
Ívar Orri Kristjánsson
Linda Dagmar Hallfreðsdóttir, 
Kári Steinn Reynisson, 
Ólafur Arnar Friðriksson,
Óskar Rafn Þorsteinsson.

Fagráð:

Sturlaugur Sturlaugsson – formaður
Maren Ósk Elíasdóttir
Hrefna Rún Ákadóttir

Kjörnefnd:

Magnús D. Brandsson – formaður
Margrét Ákadóttir
Þórður Guðjónsson