Janus Bragi Sigurbjörnsson var í gær gerður að heiðursfélaga Golfklúbbsins Leynis á Akranesi. Janus Bragi bætist þá í hóp þeirra félagsmanna sem fært hafa klúbbnum með einum eða öðrum hætti mikla hvatningu og óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Golfklúbbnum Leyni.
Forsvarsmenn Leynis afhentu Janusi Braga heiðursviðurkenninguna þann 25. febrúar s.l. á heimili Janusar og eiginkonu hans, Katrínu Georgsdóttur, sem hefur einnig lagt mikið á vogarskálarnar í golfsögu Akraness.
Frá vinstri: Pétur Ottesen formaður Leynis, Janus Bragi, Katrín og Rakel Óskarsdóttir framkvæmdastjóri Leynis.
Janus Bragi er fæddur 1931 hefur verið mjög virkur félagsmaður frá árinu 1971 og er sá félagsmaður sem borgað hefur sitt árgjald hvað lengst og ávallt hefur hann gert það með miklu stolti og bros á vör.
Ef farið er á alnetið og slegið inn Janus Bragi Sigurbjörnsson þá koma upp síður og tenglar um kappann og tengjast þeir nær undantekningarlaust Golfklúbbnum Leyni.
Mikinn fjársjóð mynda má finna inn á Ljósmyndasafni Akranes af Janusi Braga og þeim hjónum á góðum stundum á Garðavelli. Það er alveg ljóst að Golfklúbburinn Leynir hefur átt hug og hjarta Janusar Braga og þeirra hjóna í meira en hálfa öld.
Tímarnir og aðstæður á Garðavelli hafa heldur betur breyst á þessum árum en það hefur ekki aftrað Janusi Braga í að mæta á völlinn því aðlögunarhæfni hans er mikil.
Það hefur verið virkilega vinalegt að fá þau hjónin til okkar sem fastagesti í Frístundamiðstöðina, áður golfskálann, og hefur það gefið mörgum okkar hlýju og gleði að fylgjast með þeim hjónum í keppni sín á milli út á vellinum.
Margir félagsmenn sem og gestir klúbbsins hafa haft orð af því hversu fallegt þetta er. Það gefur klúbbnum okkar svo sannarlega fallegan blæ.
Janus Bragi er ekki að kljást við aldursfordóma því hann lítur á unga fólkið í afgreiðslunni, sem og aðra starfsmenn Leynis sem jafningja, það er ekki sjálfgefið.
Það eru því forréttindi að fá hann og þau hjónin í heimsókn og ræða þau mál sem brenna á okkur hverju sinni.
Janus Bragi hefur til margra ára, eftir þeim gögnum sem klúbburinn hefur undir höndum, ávallt verið eins og sagt er – All inn – Ekkert dútl – enda spilar hann að öllu jafna vel yfir 60 hringi á sumri. Það er virkilega vel gert.
Þá ber að nefna það að Janus Bragi hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Leyni í gegnum tíðina og færir stjórn honum bestu þakkir fyrir það óeigingjarna starf.
Það var því sannur heiður að veita Janusi Braga þessa heiðursnafnbót sem hann á svo fyllilega skilið. Að gefnu tilefni henti formaður stjórnar Pétur Ottesen í fallega vísu um þau hjónin.
Pétur Ottesen orti þessa vísu Janusi til heiðurs.
Jákvæðan þú Janus Braga
jafnan hittir fyrir.
Allt hans líf og alla daga
einlægt brosið lifir.
Án konu við þó komumst fátt
þar Kata reyndist besta.
Haldreipi sem hefur átt
það hér í skrár má festa.