Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að vinnuaðstæður í verksmiðju Elkem hafi verið óviðunandi og stuðlað að heilsutjóni fyrrverandi starfsmanns Elkem sem höfðaði mál gegn fyrirtækinu. Í dómi héraðsdóms kemur fram að starfsábyrgðatryggin félagsins hjá Sjóvá eigi að greiða manninum tæplega 22 milljónir króna, auk skaðabótavaxta frá 2012 og dráttarvaxta frá 2018, vegna tjóns sem hann varð fyrir í starfi sínu. Þá fékk starfsmaðurinn 1,5 milljón króna í miskabætur.
Dóminn má lesa í heild sinni hér:
Frá þessu er greint á vef Viðskiptablaðsins sem er í heild sinni hér:
Starfsmaðurinn hóf störf hjá Elkem í júní 2007. Frá árinu 2008 starfaði hann sem tappari við ofn númer eitt alveg þar til í september 2012. Þá var hann greindur með Wegeners’s granulomatosis (WG), bólgusjúkdóm sem leggst á smáæðar líkamans.
Elkem var með tryggingu hjá Sjóvá og óumdeilt var að hún náði einnig til atvinnusjúkdóma.
Í álitsgerð lækna, sem aflað var vegna veikinda mannsins og tveggja annarra starfa, kom fram að útsetning fyrir kísilryki jyki líkurnar á því að fólk gæti þróað með sér sjúkdóminn. Dómkvaddir matsmenn, einnig læknar, sögðu að það væri mjög líklegt að útsetning fyrir kísilryki og kísilsýru hefði verði orsök sjúkdómanna. Varanlegur miski var metinn 35% og varanleg örorka 30%.
Í málinu lá einnig fyrir niðurstöður mengunarmælinga Vinnueftirlitsins en þar kom fram að mengun í verksmiðjunni hefði oft verið yfir mörkum reglugerða. Loftræsikerfi hússins hafi ekki haft undan við að koma menguðu lofti úr húsinu. Rykgrímur hafi verið til staðar handa starfsfólki en þær ekki veitt fullnægjandi vörn.
Allur málskostnaður mannsins, 3,1 milljón króna, greiddist úr ríkissjóði þar sem hann naut gjafsóknar. Þá var Sjóvá dæmt til að greiða 4,8 milljónir króna í málskostnað til ríkissjóðs.