Félagsmenn Leynis tóku til hendinni á Garðavelli – spennandi golfsumar framundan

Fjölmargir félagsmenn úr Golfklúbbnum Leyni mættu s.l. laugardag á vinnudag klúbbsins sem er árlegur viðburður.

Sjálfboðaliðarnir fengu ýmis verkefni til þess að gera Garðavöll tilbúinn fyrir golftímabilið sem er rétt handan við hornið. Stefnt er að opnun Garðavallar þann 1. maí fyrir félagsmenn og almenn opnun verður þann 3. maí – og verður þá leikið inn á sumarflatir.

Eins og áður segir voru verkefnin fjölbreytt. Æfingaskýlið Teigur fær nýja ásýnd með nýjum lit og var hafist handa við það viðamikla verkefni. Trjágróður var grisjaður og afklippur hreinsaðar af vellinum, brúargólf endurnýjuð svo eitthvað sé nefnt.

Töluverðar framkvæmdir hafa átt sér stað á Garðavelli á undanförnum mánuðum – og þá sérstaklega við 12. flötina en þeim framkvæmdum er ekki lokið.