Frábær árangur kraftlyftingafólks úr röðum ÍA á Íslandsmótinu 2021


Kraftlyftingafólk frá Kraftlyftingafélagi Akraness gerði það gott um helgina á Íslandsmeistaramóti í kraftlyftingum og klassískum kraftlyftingum sem fram fór í íþróttahúsinu við Varmá í Mosfellsbæ.

Kristín Þórhallsdóttir var stigahæst í kvennaflokki í klassískum kraftlyftingum með 102,78 stig og Íslandsmeistari í -84 kg flokki kvenna. Hún lyfti þyngst 210 kg í hnébeygju, 110 kg í bekkpressu og 220 kg í réttstöðulyftu og samanlagður árangur 540 kg, en það er yfir gildandi Evrópumeti . Sömuleiðis var hnébeygjan hennar upp á 210 kg yfir gildandi Evrópumeti (en aðeins er hægt að setja alþjóðleg met formlega á alþjóðegum mótum í kraftlyftingum).

Sylvía Ósk Rodriguez varð önnur í -84 kg flokki kvenna á sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti í klassískum kraftlyftingum. Hennar þyngstu lyftur voru 140 kg í hnébeygju, 77,5 kg í bekkpressu, 150 kg í réttstöðulyftu og samanlagður árangur 367,5 kg og 70,2 stig.


Einar Örn Guðnason var stigahæstur í karlaflokki í kraftlyftingum með búnaði með 89,99 stig og Íslandsmeistari í -120 kg flokki karla. Þyngstu lyftur hjá honum voru 360 kg í hnébeygju, 260 kg í bekkpressu og 280 kg í réttstöðulyftu og samanlagður árangur 900 kg. Með þeim árangri krækti hann sér í HM lágmark eins og hann stefndi að.

Helgi Arnar Jónsson var stigahæsti unglingurinn í klassískum kraftlyftingum með 86,2 stig og Íslandsmeistari í -83 kg U23 flokki karla. Helgi lyfti þyngst 223 kg í hnébeygju, 125 kg í bekkpressu og 260 kg í réttstöðulyftu og með samanlagðan árangur upp á 608 kg.


Öll náðu þau sínum markmiðum á mótinu og settu einnig allmörg Íslandsmet. Kristín, Einar og Helgi eru öll komin með lágmörk á Heimsmeistaramót og Evrópumeistaramót sem haldin verða síðar á árinu.