Kvennalið ÍA landaði góðum 3-2 sigri á útivelli gegn Grindavík í gær í Lengjudeildinni í knattspyrnu. Um var að ræða leik í 7. umferð Íslandsmótsins í næst efstu deild.
Grindavík komst yfir á 40. mínútu með marki sem Viktoría Sól Sævarsdóttir skoraði. Sigrún Eva Sigurðardóttir var fljót að jafna fyrir ÍA með góðu skoti á 42. mínútu og staðan var jöfn í hálfleik, 1-1.
Dana J. Scheriff, bandarískur leikmaður í liði ÍA, kom liðinu yfir með góðum skalla á 50. mínútu. Hin þaulreynda Unnur Ýr Haraldsdóttir skoraði þriðja mark ÍA með marki úr vítaspyrnu á 67. mínútu. Brotið var á Unni Ýr í vítateignum og tók hún vítaspyrnuna sjálf. Christabel Oduro minnkaði muninn fyrir Grindavík á 73. mínútu og spennan var mikil á lokakafla leiksins í erfiðum aðstæðum í Grindavík.
ÍA landaði eins og áður segir 3-2 sigri og stigin þrjú voru liðinu afar mikilvæg en liðið er nú í fjórða sæti Lengjudeildarinnar – sem er næst efsta deild Íslandsmótsins.
Mikilvægur sigur hjá kvennaliði ÍA gegn Grindavík á útivelli
By
skagafrettir