Um síðustu helgi hélt pilta-hluti Club71 árlegt jólakótelettukvöld. Club71 er félagsskapur úr árgangi fólks fæddum 1971 á Akranesi og ýmsum fylgifiskum þeirra. Markmiðið er að sameina það að gleðjast og láta gott af sér leiða í leiðinni. Kvöldið tókst ljómandi vel þó með árunum séu félagar farnir að sofa töluvert fyrr en gert var á árum áður.
Fjöldi góðra gesta mætti á hátíðina en boðið var upp á kótelettur í raspi með tilheyrandi meðlæti og ljúffengan eftirrétt. Hátíðarræðan var í höndum eins af heiðursgestum kvöldsins, Haraldar Benediktssonar bæjarstjóra Akraness og var glæsileg eins og við var að búast.
Hefð er fyrir því að styrkja gott málefni á kótelettukvöldinu og í ár fékk Gleðistjarnan styrk kvöldsins. Gleðistjarnan er góðgerðarfélag sem stofnað var til minningar um Þuríði Örnu Óskarsdóttur sem lést þann 20. mars 2023, ung að árum.
Tilgangur félagsins er að halda uppi minningu Þuríðar með því að gleðja systkini langveikra barna með gleðigjöfum og viðburðum. Félagið aflar fjár til starfsemi sinnar með styrkjum frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum og með viðburðahaldi.
Óskar Örn Guðbrandsson stjórnarmaður í Gleðistjörnunni var einn af heiðursgestum kvöldsins. Hann veitti styrknum viðtöku og sagði frá starfsemi félagsins en Þuríður var dóttir hans.
Systir Óskars, sópran söngkonan Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, tók nokkur lög og sló algerlega í gegn. Af öðrum dagskrárliðum er einnig vert að minnast á Skaga-trúbadorinn unga, Patrek Unnarsson, sem kom, sá og sigraði.
Club71 eða árgangur 71 á Akranesi er óvenju samheldinn og hefur staðið fyrir ýmsum góðgerðarmálum og menningarviðburðum á Akranesi síðustu 20 árin eða svo.
Ber þar hæst Þorrablót Skagamanna sem hópurinn kom í gang og sá um í 10 ár samfellt, en þessi viðburður hefur gefið af sér nokkrar milljónir árlega sem runnið hafa óskipt til góðgerðar- og íþróttamála á Akranesi. Einnig mætti nefna Brekkusöng bæjarhátíðarinnar Írskra daga sem er bæjarhátíð Akraness, en þennan viðburð sækja þúsundir manna á ári hverju í boði hópsins og samstarfsaðila.
Ýmsir einstakir viðburðir hafa verið haldnir á vegum félagsskaparins í gegnum tíðina en hópurinn fékk Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar árið 2016.
Árið 2021 stóð félagsskapurinn fyrir viðburðinum „Stokkið fyrir Svenna.“ Tilgangurinn var að safna áheitum til kaupa á sérsmíðuðu rafhjóli fyrir einn úr árganginum, Sveinbjörn Reyr, sem lenti í alvarlegu slysi fyrir tveimur árum áður.
Viðburðurinn fór langt fram úr væntingum og 177 stökkvarar stukku í sjóinn af smábátabryggjusvæðinu á Akranesi og settu þar með óopinbert Íslandsmet í sjóstökki. Rúmlega 8 milljónir króna söfnuðust og sumarið 2022 var fjölsóttur viðburður þegar bæjarbúum bauðst að fara í hjólatúr með Svenna á nýja hjólinu og félögum hans um Akranes.