Samfylkingin opnaði nýverið nýja síðu þar sem flokkurinn leggur til 50 aðgerðir til að takast á við loftslagsbreytingar. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Samfylkingin tekur undir kröfur loftslagsverkfallsins, sem hefur komið saman alla föstudaga á Austurvelli í meira en þrjú ár, og leggur til að Ísland lýsi yfir neyðarástandi vegna hamfarahlýnunar. Grípa þarf til aðgerða í samræmi við það og ekki hægt að bíða í heilt kjörtímabil í viðbót eftir raunverulegum árangri í baráttunni við loftslagsvánna.
Aðgerðaráætlun Samfylkingarinnar felur í sér skýrari aðgerðir en nokkur annar flokkur boðar fyrir kosningarnar 25. september, þar sem loftslagsmálin verða mikið hitamál. Samfylkingin birtir þessar aðgerðir sem grundvöll umræðu, frekar en að umræða um loftslagsmál snúist um almennar yfirlýsingar og óútfærðar aðgerðir.
Samfylkingin ætlar að hefja kraftmikla sókn í loftslagsmálum, sókn sem jafnast á við stærstu samfélagsverkefni 20. aldar: raflýsingu og hitaveitu, lagningu síma og þjóðvega. Til þess að hrinda þessu í framkvæmd þurfum við nýja nálgun og alvöru aðgerðir strax.
Hvað ætlar Samfylkingin að gera?
Metnaðarfyllri markmið og öflugri stjórnsýsla
1. Lögfesta loftslagsmarkmið um a.m.k. 60 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á ábyrgð stjórnvalda fyrir árið 2030 miðað við losun ársins 2005.
2. Móta nýja og miklu metnaðarfyllri aðgerðaáætlun um réttlát og sjálfbær umskipti en þá sem nú er í gildi, og tryggja til hennar fjármagn.
3. Gera tímasetta áætlun um markvissa útfösun jarðefnaeldsneytis svo Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040.
4. Byggja upp öfluga loftslagsstjórnsýslu þvert á ráðuneyti til að taka utan um málaflokkinn, sinna nauðsynlegri greiningarvinnu, samhæfingu verkefna og eftirfylgni með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Fela loftslagsráði aðhalds- og eftirlitshlutverk gagnvart stjórnvöldum líkt og er gert í Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð.
5. Bæta loftslagsmarkmiðum inn í alla áætlanagerð hins opinbera, fjármálaáætlun, byggða- og samgönguáætlanir.
6. Auka vægi umhverfismenntunar og fræðslu um loftslagsbreytingar í grunnskólum og framhaldsskólum.
Stórefling almenningssamgangna
7. Flýta framkvæmdum við Borgarlínu og öðrum loftslagsvænum framkvæmdum í samgönguáætlun höfuðborgarsvæðisins.
8. Hefja undirbúning að Keflavíkurlínu, grænni tengingu milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar og tengja þannig betur byggðarlög á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðið.
9. Byggja upp Landlínu, heildstætt almenningsvagnanet um allt landið, svo að það verði einfaldur og raunhæfur kostur að ferðast um Ísland án einkabíls. Koma upp stoppistöðvum í helstu þéttbýliskjörnum nærri þjónustu, sem eru þægilegar óháð veðri, tengdar göngu- og hjólastígum og með aðgengi að örflæðislausnum á borð við reiðhjól, rafmagnshjól og rafskutlur.
10. Gera hjólreiðaáætlun fyrir allt Ísland og setja aukinn kraft í uppbyggingu göngu- og hjólastíga um allt land til að efla fjölbreyttari fararmáta.
11. Setja heildarlög um almenningssamgöngur þar sem hlutverk hins opinbera og skyldur og réttindi farþega og flytjanda eru skilgreind.
Hraðari orkuskipti
12. Gera tímasettar áætlanir um hraðari orkuskipti í samgöngum hvort sem litið er til einkabifreiða, fyrirtækjaflota, atvinnubifreiða, vöruflutningabifreiða, vinnutækja eða fólksflutningabíla.
13. Fjölga hleðslustöðvum um allt land fyrir einkabíla og atvinnutæki.
14. Gera kröfu á söluaðila um stigvaxandi hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í heildarorkugildi þess eldsneytis sem er selt til notkunar í samgöngum á landi.
15. Afnema skattaafslátt vegna kaupa á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
16. Vinna að rafvæðingu bílaleiguflotans með skattalegum hvötum, fjölgun hleðsluinnviða á gististöðum og helstu ferðamannastöðum og kröfum um að bílaleigur auki hlutfall hreinorkubíla og bjóði þá sem fyrsta valkost.
17. Vinna með leigubifreiðafyrirtækjum og samtökum atvinnubílstjóra að því að fjölga hreinorku-leigubílum í umferð, skapa hvata og ívilnanir til orkuskipta og tryggja innviði til hleðslu.
18. Efla flutningskerfi raforku til að styrkja öruggt aðgengi að rafmagni og nýtingu um allt land og til að flutningskerfið standi undir álagi hraðari orkuskipta. Draga úr orkusóun og auka framboð af raforku með fjölbreyttari orkukostum, ss. vindorku, og stækkun virkjana sem fyrir eru.
Loftslagsvænni landbúnaður og landnýting
19. Ráðast í umbætur á landbúnaðarkerfinu í samvinnu við bændur án þess að draga úr stuðningi við þau. Hætta að skilyrða landbúnaðarstyrki við framleiðslu á kjöti og mjólk en styðja loftslagsvæn verkefni, kolefnisbindingu, endurheimt votlendis og vistkerfa, landgræðslu og skógrækt. Bæta gæðastýringu í sauðfjárrækt, draga skipulega úr lausagöngu búfjár og styðja við uppgræðslu á afréttum.
20. Auka stuðning við grænmetisrækt og loftslagsvæna matvælaframleiðslu og draga úr rafmagnskostnaði garðyrkjubænda.
21. Leggja aukna áherslu á vöktun og vernd líffræðilegs fjölbreytileika. Tryggja að aðgerðir til kolefnisbindingar samræmist markmiðum um vernd líffræðilegs fjölbreytileika. Efla landvörslu og halda áfram friðlýsingu svæða í samræmi við tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands.
22. Endurheimta meira en 10% af röskuðu votlendi á Íslandi fyrir árið 2030 með auknum stuðningi við landbótaverkefni frjálsra félagasamtaka og samvinnu við landeigendur og sveitarfélög samhliða breytingum á styrkjakerfi landbúnaðar.
Nýsköpun og grænar lausnir
23. Stofna grænan fjárfestingarsjóð að norrænni fyrirmynd sem er í eigu hins opinbera og starfar með einkafjárfestum að uppbyggingu loftslagsvænnar atvinnustarfsemi.
24. Styðja við tæknilausnir til kolefnisföngunar- og förgunar svo Ísland geti tekið forystu í grænum hátækniiðnaði.
25. Draga með markvissum hætti úr losun frá stóriðju og skapa hvata til bindingar kolefnisútstreymis í berglög. Setja sérstök markmið um samdrátt í losun frá stóriðju.
26. Styðja við rannsóknir, þróun og framleiðslu á hreinum orkugjöfum til útflutnings og notkunar innanlands.
27. Vinna að skipulegri uppbyggingu iðn- og auðlindagarða á Íslandi og breytingar á lögum, regluverki og leyfiskerfum til að liðka fyrir slíkri starfsemi. Skapa hvata til fjárfestingar í grænni verðmætasköpun þar sem m.a. er tekið tillit til ólíkra byggða landsins.
28. Styðja í auknum mæli við kaup á vistvænum tækjum, bæði vegna iðnaðar og samgangna á landi og í skipum og haftengdri starfsemi.
29. Leita samstarfs við leiðandi fyrirtæki og nágrannaþjóðir um rafvæðingu innanlandsflugs og annarra styttri flugferða.
Hafrannsóknir og loftslagsvænni sjávarútvegur
30. Móta heildarstefnu um hafið, verndun og sjálfbæra nýtingu á lífríki sjávar.
31. Veita auknum fjármunum til innlendra og alþjóðlegra rannsóknarverkefna um áhrif loftslagsbreytinga á súrnun sjávar og hitastig í hafinu.
32. Gera kröfu um vaxandi hlutdeild hreinnar orku í seldu skipaeldsneyti.
33. Banna alfarið flutninga á svartolíu og notkun hennar sem skipaeldsneyti innan 12 mílna landhelgi Íslands.
34. Banna olíuleit og olíuvinnslu í íslenskri landhelgi.
35. Hraða rafvæðingu hafna og vinna með sveitarfélögum að breytingum á hafnargjöldum sem taka mið af kolefnisspori skipa.
36. Auka eftirlit með meðhöndlun F-gasa og hraða útfösun þeirra.
37. Hvetja til aukinnar endurvinnslu á veiðarfærum og bæta eftirlit með því að þeim sé ekki fleygt í sjó.
38. Vinna markvisst með sveitarfélögum að því að bæta meðhöndlun fráveituvatns, koma upp viðunandi skólphreinsun og dælingu til að verja strendur Íslands og vinna gegn losun örplasts í hafið.
Forysta á alþjóðavettvangi
39. Taka upp græna utanríkisstefnu, skipa sendiherra loftslagsmála sem samhæfir skilaboð Íslands um loftslagsmál, stofna umhverfis- og loftslagsskrifstofu í utanríkisráðuneytinu og auka þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi um náttúruvernd og loftslagsmál.
40. Gera loftslagsmál að lykilverkefni í tvíhliðasamskiptum Íslands og nánustu samstarfsríkja. Tengja loftslagsmál og jafnréttismál í utanríkismálum og styðja betur við loftslagsverkefni gegnum alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.
41. Mæta til 26. ríkjaráðstefnu Loftslagssamningsins í Glasgow í nóvember (COP26) með metnaðarfull markmið, skýran málflutning og raunverulegt framlag um hvernig Ísland geti staðið við Parísarsáttmálann og lagt sitt af mörkum.
42. Vinna markvisst að því að gera Ísland að alþjóðlegri miðstöð fyrir umræður um loftslagsbreytingar og hvetja til uppsetningar á loftslagssýningum til að auka meðvitund um þær breytingar sem eru að verða á lífríkinu.
43. Taka aukinn þátt í Evrópusamstarfi í loftslagsmálum, leita samstarfs við Evrópusambandið um aðkomu að og þátttöku í græna sáttmála ESB og nýta þær leiðir sem færar eru innan EES samningsins um þátttöku í evrópskum samstarfsverkefnum í loftslagsmálum.
44. Virkja saman stjórnvöld, sveitarfélög, fyrirtæki og háskóla til þátttöku í aðgerðum Evrópusambandsins gegn loftslagsbreytingum og um kolefnishlutlausar Evrópuborgir.
Græn fjármál og atvinnulíf
45. Efla til muna samstarf stjórnvalda og atvinnulífs um aðgerðir gegn hamfarahlýnun, bæði það sem snýr að verkefnum innan lands og verkefni og markaðssetningu í útlöndum þar sem sótt verði fram með uppruna- og umhverfismerki fyrir íslenska framleiðslu.
46. Kolefnismerkja íslenska framleiðslu, þar á meðal matvæli, og vinna að því að neytendur séu sem best upplýstir um kolefnisspor þess sem keypt er í íslenskum verslunum.
47. Rafvæða umhverfiseftirlit, koma skráningu losunar yfir á stafrænt form og stuðla að rauntímaeftirliti með mengandi starfsemi.
48. Gera kröfur um notkun vistvænna byggingarefna í öllum nýbyggingum, stuðla að hærra hlutfalli umhverfisvottaðra bygginga og framkvæmda og styðja við uppbyggingu grænna íbúðahverfa. Setja skilmála um kolefnisspor og meðhöndlun úrgangs í útboðum vegna allra opinberra framkvæmda.
49. Gera aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfi: minni sóun, betri nýtingu, minni neyslu, endurnotkun og endurvinnslu. Vinna náið með sveitarfélögum að því að styðja við alla þá þætti sem þarf til að gera hringrásarhagkerfi að veruleika á Íslandi.
50. Taka upp græna peningamálastefnu að hætti Seðlabanka Bretlands, gera auknar kröfur á fjármálafyrirtæki um að fjármagna grænt en ekki grátt og beita hvötum í sömu átt. Leita samstarfs við lífeyrissjóði um verulega auknar grænar fjárfestingar.