Skagamaðurinn Jóhannes Harðarson verður næsti aðstoðarþjálfari karlaliðs ÍA í knattspyrnu samkvæmt heimildum hlaðvarpsþáttarins Þungavigtin – sem er hluti af fjölmiðlarisanum SÝN.
Kristján Óli Sigurðsson – einn af þáttastjórnendum Þungavigtarinnar sagði í þættinum í dag að Jóhannes verði næsti aðstoðarþjálfari mfl. ÍA og fái án efa stærra hlutverk innan félagsins.
Jóhannes Karl Guðjónsson, aðalþjálfari karlaliðs ÍA og Jóhannes Harðarson, eru systkinabörn og náfrændur. Bjarney Þórunn móðir Jóhannesar Karls og Hörður faðir Jóhannesar eru systkini.
Jóhannes Harðarson er 45 ára, fæddur árið 1976. Hann lék með ÍA á árunum 1995-2000 en hann fór síðan í atvinnumennsku í Hollandi og Noregi. Hann var þjálfari hjá úrvalsdeildarliðinu Start á árunum 2017-2021.
Jóhannes var um tíma þjálfari ÍBV í Vestmanneyjum þegar liðið var í efstu deild.