Ísak Bergmann Jóhannesson og Stefán Teitur Þórðarson voru báðir í byrjunaliði Íslands þegar liðið mætti Rúmeníu á útivelli í undankeppni HM 2022 á útivelli í Búkarest.
Þetta var 9. A-landsleikur Ísaks Bergmanns sem er fæddur árið 2003 og Stefán Teitur var að leika sinn 6. landsleik fyrir A-lið Íslands. Skagamennirnir áttu fínan leik en Ísland fékk nokkur færi til þess að skora mark líkt og heimamenn.
Leikurinn endaði með markalausu jafntefli og staða Íslands í riðlinum er með þeim hætti að liðið á ekki möguleika á að komast í lokakeppni HM í Katar 2022.
Birkir Bjarnason, fyrirliði íslenska landsliðsins, skrifaði nafn sitt á spjöld knattspyrnusögunnar þegar hann jafnaði við Rúnar Kristinsson – sem hefur líkt og Birkir leikið 104 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.
Þeir deila því leikjametinu á A-landsliði karla en líklegt þykir að Birkir bæti metið á sunnudaginn.
Næsti leikur Íslands er gegn Norður-Makedóníu í Skopje sem fram fer á sunnudaginn. Ísland er í fimmta sæti riðilsins með 9 stig en Rúmenía er í 3. sæti með 14 stig.