Alls greindust 126 einstaklingar með Covid-19 smit á landinu í gær og voru 73 þeirra utan sóttkvíar. Rúmlega 3000 sýni voru tekin á landinu í gær.
Nú eru 1.943 einstaklingar í sóttkví, 1.577 í einangrun með Covid-19 smit og 106 í skimunarsóttkví.
Á Akranesi hefur lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akranesi verið lokað. Ástæðan er sú að sá sem greindist fyrst með Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hér á landi lá á deildinni.
Deildin verðu lokuð í að minnsta kosti tvo til þrjá daga. Þá hefur starfsfólk verið sent í sóttkví og sjúklingar sömuleiðis. Sýnatökur eru í gangi sem stendur að sögn Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. „Við höfum verið í skimunum og þær eru aftur framkvæmdar í dag,“ segir Jóhanna í samtali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá.
Á Vesturlandi eru 106 einstaklingar í einangrun með Covid-19 smit og 105 einstaklingar eru í sóttkví.