Í bænum Florø á vesturströnd Noregs búa um 12.000 manns og þar á meðal er sjúkraflutningamaðurinn söngelski Jón Valur Ólafsson.
Skagamaðurinn fylgist vel með því sem er að gerast í gamla heimabænum og verkefnið Skaginn syngur inn jólin heillaði Jón Val upp úr skónum.
Jón Valur tók þessa hugmynd frá gamla heimabænum og útfærði með norskum vinum sínum í Florø.
„Það er ekkert leyndarmál að ég er bara að herma eftir þessu frábæra verkefni á Akranesi. Ég bar þetta undir hóp af metnaðarfullu tónlistarfólki hér íFlorø. Það voru allir til í að prófa þetta. Við fórum í fyrirtæki til þess að fjármagna þetta verkefni og skelltum okkur í þetta,“ segir Jón Valur en hann tekur sjálfur þátt með laginu Desembervind sem hefur áður verið til umfjöllunar hér á Skagafréttum.
„Hér búa um 12.000 manns og það var mjög einfalt að fá listafólk og söngvara til að taka þátt. Fólki hér íFlorø þykir þetta mjög spennandi. Ég er að stýra þess ásamt Eirik Molnes Husabø sem samdi lagið sem ég syng. Við tókum þetta upp í menningar – og tónlistarsmiðju sem hann er í forsvari fyrir og heitir Husabula Kulturscene. Bæjarblaðið okkar, Firdaposten, birtir síðan útkomuna á vefsíðu sinni og við deilum þessu áfram á samfélagsmiðlana,“ segir Jón Valur Ólafsson en lagið hans er hér fyrir neðan ásamt öllum lögunum sem hafa nú þegar farið í loftið íFlorø.