Uppsjávarskip sem skráð eru á Akranesi lönduðu fyrstu loðnuförmum vertíðarinnar.
Eins og fram kom í gær landaði Bjarni Ólafsson AK í Neskaupstað, alls 1600 tonnum, en skipið kom til hafnar um hádegi.
Á vef Brims kemur fram að Víkingur AK kom til hafnar um kl. 8 að morgni í gær á Vopnafirði með um 2.100 tonn til löndunar.
Róbert Hafliðason var skipstjóri í þessari veiðiferð Víkings AK en skipið er í eigu Brims
Róbert og Þorkell Pétursson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK, munu án efa ræða málin um hvor þeirra hafði betur í þessu loðnukapphlaupi – en samkvæmt þeim gögnum sem eru til staðar þá virðist sem að Víkingur AK hafi vinninginn.
Úthlutaður afli Brims í loðnu á vertíðinni er 113 þúsund tonn og því næg verkefni framundan fyrir áhöfnina.
Venus og Svanur, sem einnig eru í eigu Brims, eru á miðunum og eru komin með góðan afla og munu landa fljótlega á Vopnafirði.