Nýverið fór fram keppni í Brekkubæjarskóla sem aldrei áður hefur farið fram. Frá þessu er greint á vef Brekkubæjarskóla.
Um var að ræða spurningakeppni fyrir nemendur í elstu bekkjum skólans. Á undanförnum árum hefur verið hefð fyrir slíkri keppni fyrir nemendur í 4.-7. bekk og óskuðu nemendur í 8.-10. bekk að fá tækifæri til að láta ljós sitt skína í slíkri keppni.
Nafnið á keppninni er Bókastjörnur Brekkó og er keppnin með aðeins öðru sniði en Bókaormarnir sem haldnir eru fyrir miðstigsnemendur í 4.-7. bekk.
Nemendum var boðið að skrá sig til leiks þvert á árganga og voru þrír í liði. Þrjú lið skráðu sig til keppni og mættu þau til leiks á bókasafn Brekkubæjarskóla.
Samnemendur og starfsfólk skólans fylgdust með gangi mála í gegnum fjarfundabúnað og gátu tekið þátt ef þau vildu þar sem Kahoot forritið var notað til leiks.
Keppnin var hörð og skemmtileg þar sem að Anna Valgerður, Lilja Petra og Hrefna Rún, nemendur úr 9. bekk stóðu uppi sem sigurvegarar.