Áhaldahús Akraneskaupstaðar við Laugarbraut og endurvinnsla Fjöliðjunnar verða sameinuð undir einu þaki á næstu misserum í nýju húsi. Tillaga þess efnis var samþykkt á síðasta fundi bæjarstjórnar Akraness.
Áhaldahúsið við Laugarbraut er í húsnæði sem var áður slökkviliðsstöð. Áhaldahúsið er m.a. miðpunktur í starfi vinnuskóla Akraness yfir sumartímann og þar er einnig hjartað í daglegum rekstri á skipulags – og umhverfissviði sem Alfreð Þór Alfreðsson stýrir. Dýraeftirlitið er einnig með aðsetur í áhaldahúsinu.
Endurvinnsla Fjöliðjunnar hefur tekið á móti og flokkað einnota umbúðir um margra ára skeið. Starfssemin hefur verið í bráðabirgða húsnæði hjá Trésmiðjunni Akri á undanförnum misserum eða frá því að eldur kom upp í húsnæðinu við Dalbraut 10.
Ekki er búið að ákveða hvar nýtt áhaldahús og endurvinnsla Fjöliðjunnar verða staðsett á Akranesi en það verður ákveðið eins skjótt og mögulegt er á árinu 2022.
Bæjarstjórn samþykkti uppbyggingu á nýju húsi á síðasta fundi sínum og er gert ráð fyrir uppbyggingaráformum í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2022 og vegna tímabilsins 2023 til og með 2025.