Mæðrastyrksnefnd á Akranesi fær veglegan stuðning frá viðskiptavinum Krónunnar

Viðskiptavinir Krónunnar á Akranesi söfnuðu saman alls 298 þúsund krónum í jólastyrkjasöfnun Krónunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Krónunni.

Þá gafst viðskiptavinum tækifæri til að styrkja góðgerðarsamtök sem sjá um matarúthlutanir í sínu nærumhverfi í aðdraganda jóla og rennur fjárhæðin óskert til Mæðrastyrksnefndar Akraness sem hlýtur einnig styrk frá Krónunni í formi matarúttekta.

Alls söfnuðu viðskiptavinir Krónunnar yfir 5 milljónum króna sem renna óskertar til ellefu samtaka um land allt og mun Krónan að auki veita 6,5 milljónir króna til sömu góðgerðarsamtaka, auk tveggja samtaka til viðbótar. Heildarupphæðin nemur því 11,5 milljónum króna sem er samanlagt framlag viðskiptavina og Krónunnar til matarúthlutana.

„Við hjá Krónunni erum í skýjunum með þessar frábæru viðtökur viðskiptavina okkar á Akranesi sem kusu að leggja sitt af mörkum til verðugs málefnis í aðdraganda jóla. Þetta er í annað sinn sem bjóðum viðskiptavinum okkar að láta gott af sér leiða og er upphæð framlagsins í ár framar okkar björtustu vonum. Saman styrkjum við Mæðrastyrksnefnd Akraness sem sinnir mikilvægu og óeigingjörnu starfi við matarúthlutanir fyrir jólin og þykir okkur hjá Krónunni afar vænt um þetta samvinnuverkefni okkar og viðskiptavina,” segir Sigurður K. Guðmundsson, verslunarstjóri Krónunnar á Akranesi:

Í söfnuninni bauðst viðskiptavinum að bæta við 500 krónum í lokaskrefi greiðslu í verslunum og Snjallverslun Krónunnar og þannig gefið tækifæri á að auka stuðning við þá sem þurfa á mataraðstoð að halda fyrir jólin. Styrkirnir eru í formi gjafakorta sem gerir skjólstæðingum kleift að velja sjálfir í matarkörfuna sína.

Góðgerðarsamtök sem hljóta styrk frá viðskiptavinum og Krónunni í ár eru Mæðrastyrksnefnd Akraness, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar, Jólasjóður Fjarðabyggðar, Selfosskirkja, Landakirkja í Vestmannaeyjum, Velferðarsvið Reykjanesbæjar, Soroptimistafélag Mosfellsbæjar, Víkurkirkja í Vík og Stórólfshvolskirkja á Hvolsvelli. Auk þessara samtaka hljóta Hjálpræðisherinn og Hjálparstarf kirkjunnar styrk frá Krónunni í formi matarúttekta.

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/10/29/muninn-og-fva-fengu-samfelagsstyrki-fra-kronunni/