Íþróttamaður Akraness 2021 – þú getur tekið þátt í kosningunni!

Hið árlega kjör Íþróttamanns Akraness fer nú fram og stendur kosning til og með 03.01.2022.

Vegna COVID-19 þá er það annað árið í röð sem ekki öll aðildarfélög ÍA geta verið með tilnefningar.

Ekki var hægt að halda alla þá viðburði sem áætlaðir voru árið 2021.

Úrslit verða kunngerð þann 6. janúar 2022 í beinu streymi frá Garðavöllum í gegnum Youtube rás ÍATV.

Íbúar á Akranesi geta tekið þátt í kjörinu – smelltu hér til að kjósa.

Þeir sem tilnefndir eru í stafrófsröð þessi:

Kylfingur ársins hjá Golfklúbbnum Leyni
Björn Viktor Viktorsson

Björn Viktor var þrisvar í öðru sæti á unglingamótaröðinni. Hann var valinn í piltalandslið Íslands fyrir Evrópumót liða sem haldið var í Eistlandi og var það hans fyrsta landsliðsverkefni. Hann endaði svo í 2. sæti á heildarstigalista sumarsins en það er tveimur sætum ofar en árið 2020. Björn Viktor mætir á allar æfingar með því markmiði að bæta sig og er mikil fyrirmynd fyrir okkar yngri kylfinga.

Knattspyrnukona ársins hjá KFÍA
Dana Joy Scheriff

Dana var lykilmaður í meistaraflokki kvenna á árinu. Hún lék 18 leiki í Lengjudeildinni og skoraði í þeim 4 mörk. Einnig lék hún 1 leik í Mjólkurbikarkeppninni. Dana var lykilleikmaður í ungu liði Skagamanna og hennar styrkur hafði mikið að segja í baráttu liðsins um að reyna að halda sæti sínu í deildinni.

Badmintonmaður/kona ársins
Drífa Harðardóttir

Drífa er ein af bestu tvíliða- og tvenndarleiksspilurum á Íslandi.

Íslandsmeistari í tvenndarleik í Meistaraflokki.
Íslandsmeistari í tvíliðaleik í Meistaraflokki.
Heimsmeistari í flokki 40-44 ára í tvenndarleik.
Heimsmeistari í flokki 40-44 ára í tvíliðaleik.

Drífa er okkar fremsta badmintonkona, hún hefur alla tíð spilað fyrir ÍA á Íslandi en hún býr og æfir í Danmörku. Drífa leggur áherslu á tvíliða- og tvenndarleik og spilar þær greinar með liði sínu í deildakeppni í Danmörku. Hún hefur orðið Íslandsmeistari 12 sinnum, 5 sinnum í tvíliðaleik og 7 sinnum í tvenndarleik. 

Drífa er eina konan sem hefur orðið Íslandsmeistari í Meistaraflokki fyrir ÍA, hún er einnig sá badmintonspilari frá Íslandi sem hefur oftast orðið Heimsmeistari eldri spilara eða 3 sinnum.

Drífa kemur reglulega til Íslands og kemur alltaf á æfingar hjá ÍA. Hún hvetur krakkana áfram og leiðbeinir þeim. Hún er góð fyrirmynd fyrir badmintonkrakka, innan vallar sem utan.

Sundmaður ársins
Enrique Snær Llorens Sigurðsson


Enrique Snær er Íslandsmeistari í 400m fjórsundi. Enricue æfir 11 sinnum í viku og hefur sýnt miklar framfarir á árinu, þar sem hann er orðinn einn fremsti fjórsundsmaður á íslandi og náði hann 6. besta tíma í 400 m fjórsundi á Íslandi frá upphafi.

Enrique vann til fjölda verðlauna á Íslandsmeistaramótum á árinu og var mjög nálægt því að vinna fleiri Íslandsmeistaratitla. Enrique bætti 8 Akranesmet á árinu, þar sem hann bætti Akranesmetin í 400m fjórsundi um 11 sekúndur og í 400m skriðsundi um 7 sekúndur. Enrique æfir mjög vel og verður spennandi að fylgjast með Enrique næstu árin.

Knattspyrnumaður ársins hjá KFÍA
Ísak Snær Þorvaldsson

Ísak Snær var einn besti leikmaður Skagamanna í Pepsi Max deildinni í ár. Hann lék 20 leiki í Pepsi Max deildinni og skoraði í þeim 3 mörk. Hann lék einnig 5 leiki í Mjólkurbikarkeppninni og skoraði í þeim 1 mark.

Ísak Snær er mikill keppnismaður sem smitar út frá sér til annarra leikmanna liðsins.

Hann er frábær liðsmaður og góð fyrirmynd bæði utan sem innan vallar.

Hestamaður ársins
Jakob Svavar Sigurðsson

Jakob varð í 2. sæti samanlagðri stigakeppni í Meistaradeildinni í hestaíþróttum s.l vetur en þar er keppt í 8 keppnisgreinum og aðeins bestu knapar landsins fá að taka þátt. Hann var Íslandsmeistari í slaktaumatölti á hestinum Kopar frá Fákshólum  og líka Íslandsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum (=tölt, stökk, brokk og fet og slaktaumatölt)  á hestinum Hálfmána frá Steinsholti. Þeir stóðu líka efstir á  afar sterku töltmóti á Fjórðungsmóti Vesturlands sem haldið var í Borgarnesi í sumar.  

Jakob Svavar var valin íþróttaknapi Landsambands Hestamannafélaga (LH) á uppskeruhátíð samtakana í haust.

Jakob Svavar Sigurðsson er í landsliðinu í hestaíþróttum og átti hann m.a að keppa á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram átti að fara í Herning í Danmörku í ágúst sl. En mótið var fellt niður vegna Covid. 

Kraftlyftingarmaður/kona ársins
Kristín Þórhallsdóttir

Trónir á toppnum óháð aldri kyni eða þyngd.

Kristín sýndi og sannaði á árinu að hún er besta kraftlyftingakona Íslands frá upphafi og fylgdi ótrúlegum árangri sem hún náði í fyrra vel eftir.  Hún setti fjöldan af íslandsmetum og einnig 2 evrópumet. Kristín situr fast í 2 sæti heimslistans og er efst á styrkleikalista evrópu í sínum þyngdarflokki. Hún er frábær fyrirmynd sem leggur sitt af mörkum fyrir félagið og æfingarfélagana og slær hvergi slöku við þegar hvetja þarf aðra áfram eða vinna að innviðum félagsins. Kristín er að bæta sig á hverju móti og þó hún hafi bara verið að keppa í 2 ár er hún strax orðin mjög öflugur keppandi á heimsvísu sem er tekið eftir hvar sem hún kemur. Kristín var valin Kraftlyftingamaður/kona ársins 2021 hjá Kraftlyftingsambandi Íslands nú fyrir stuttu.

Karatemaður ársins
Kristrún Bára Guðjónsdóttir

Kristrún Bára keppti á RIG 2021 Reykjavík International Games í kata, þar náði hún 5.sæti í female seniors og 3.sæti í female juniors. Hún varð í 3.sæti í Grand Prix mótaröðinni í flokki fullorðinna.  Á Íslandsmótinu í kata varð hún í 5.sæti í flokki fullorðinna í kata kvenna.

Kristrún Bára keppti núna í nóvember fyrir landslið Íslands í karate. 
Á Norðurlandsmóti í Noregi í Stavanger varð hún norðurlandameistari í hópkata í flokki fullorðinna.
Kristrún hefur verið í unglingalandsliði og landsliði Íslands. Þar hefur hún keppt á nokkrum mótum erlendis.Kristrún Bára hefur núna verið  aðstoðarþjálfari hjá Karatefélagi Akraness í 3 ár og þjálfar þar með yfirþjálfara félagsins. Þar er hún að standa sig vel og er góð fyrirmynd fyrir iðkendur félagsins.

Knattspyrnumaður ársins hjá Kára
Marinó Hilmar Ásgeirsson

Marinó Hilmar lék á árinu 18 leiki með Kára og skoraði í þeim 8 mörk, hann var valinn leikmaður 2.umferðar í 2.deildinni þegar hann skoraði glæsilega þrennu gegn KV.
Marinó Hilmar hefur leikið með Kára síðustu 8 ár og verið einn af lykilmönnum félagsins, en hann náði þeim frábæra árangri í sumar að verða leikjahæsti leikmaður Kára frá upphafi með 120 leiki. Marinó Hilmar er leikinn og fljótur leikmaður með stórt Kárahjarta

Fimleikakona ársins
Salka Brynjarsdóttir

Salka æfir hópfimleika með meistaraflokki FIMÍA. 

Hún hefur verið lykilmaður í liði meistaraflokks síðustu ár. 

Salka er þeim góðu kostum gædd að í kringum hana ríkir alltaf mikil gleði og jákvæðni sem eru mikilvægir kostir að hafa í hópíþróttum. Salka á stóran þátt í að skapa þá góðu liðsheild og samstöðu sem ríkir í hópi meistaraflokks. Hún er vinnusöm og hvetjandi. Salka setur sér háleit markmið sem hún leggur hart að sér við að ná. 

Salka ber af í gólfæfingum og eykur ört við erfiðleika í æfingum á trampólíni og dýnu. Við eigum eftir að sjá þessa frábæru fimleikakonu halda áfram að vaxa í íþróttinni næstu árin.

Skotmaður ársins
Stefán Gísli Örlygsson

Stefán Gísli æfir með Skotfélagi Akraness og er í landsliði Íslands í leirdúfuskotfimi. Stefán var í toppbaráttunni á öllum skotmótum á Íslandi síðastliðið sumar og varð Íslandsmeistari í greininni. Stefán keppti á tveimur mótum erlendis á árinu, heimsbikarmóti á Ítalíu og evrópumeistaramótinu í Króatíu. 

Stefán er mikill keppnismaður, góður liðsmaður og viljugur til að miðla af sinni þekkingu.

Stefán varð Íslandsmeistari í ár í leirdúfuskotfimi og er í landsliði Íslands.

Körfuknattleiksmaður ársins
Þórður Freyr Jónsson

Þórður Freyr var einn af burðarrásum í 10.flokks liði ÍA sem komst í undanúrslit Íslandsmótins.

Hann lét töluvert að sér kveða í meistaraflokksliði ÍA sem liðið hafnaði í 2.sæti annarar deildar. Spilar núna stórt hlutverk í meistaraflokksliði ÍA í 1.deild.

Þórður Freyr var í U16 ára landsliðs Íslands, sem vann til bronsverðlauna á Norðurlandarmótinu og var það haldið í Finnlandi í sumar. Einnig var Þórður Freyr nýlega valinn í æfingahóp U18 ára landsliðið.

Þórður Freyr er metnaðarfullur leikmaður sem leggur mikið á sig til að ná lengra.

Klifrari ársins
Þórkatla Þyrí Sturludóttir

Þórkatla Þyrí átti gott mótaár 2021 og sigraði með yfirburðum í C-flokki 12-13 ára á Íslandsmeistarmótaröðinni í grjótglímu, með þrjú gull og eitt silfur. Á ÍM í línuklifri landaði hún góðu silfri og það sama má segja um Bikarmeistarmót Íslands í grjótglímu. 

Þórkatla Þyrí er samviskusöm og duglega, leggur metnað í allar æfingar og það verður gaman að fylgjast með henni klifra í framtíðinni.