Starfsmenn Akrasels, Garðasels, Vallarsels, Teigasels, Brekkubæjarskóla, Grundaskóla, Fjölbrautaskóla Vesturlands og Frístundamiðstöðvar Þorpsins eru Skagamenn ársins 2021. Kjörinu var lýst á Þorrablóti Skagamanna sem fram fór 22. janúar.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar kynnti Skagamenn ársins með eftirfarandi erindum sem Heiðrún Jónsdóttir, þjónustufulltrúi á bæjarskrifstofu Akraneskaupstaðar orti af þessu tilefni:
Skagamenn ársins 2021
Þegar árar ekki vel
ennþá herjar Covidið,
gæfa er þá góð ég tel
að geta treyst á frábært lið.
Vinna þau af ábyrgð öll,
ekki klikka neitt á því.
Mörgum sinna málum snjöll,
mikilvægum störfum í.
Áskorana fjölda fá
fagleg nota ráðin enn,
um þau líka eru að sjá
uppvaxandi Skagamenn
Öllum þakka margfalt má
merkum hóp í þetta sinn,
Skólastarfsfólk skilið á
Skagamannatitilinn.
Í rökstuðningi dómnefndar kemur eftirfarandi fram:
Eins og árið 2020 þá mæddi mikið á starfsfólki í leik-, grunn og framhaldsskólum og frístundastarfi bæjarins á árinu 2021. Síbreytilegar sóttvarnarreglur vegna COVID-19 hafa verið mikil áskorun fyrir stjórnendur og starfsfólk skólanna við að sinna kennslu eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Staðarnám hefur verið í gangi að mestu leyti á þessu ári með þeim skilyrðum sem hafa verið í gildi hverju sinni. Grímuskylda, fjarlægðarmörk, sóttkví, smitgátt, einangrun hafa verið óþarfalega fyrirferðarmikil í skólastarfinu ásamt því að margir hafa þurft að kljást við loftgæða- og rakavandamál í skólahúsnæði. Þessar aðstæður hafa kallað á útsjónarsemi, skipulag og breytta kennsluhætti til að geta haldið skólastarfinu úti á árinu.
Eftirfarandi starfsfólk tók við viðurkenningunni ásamt blómaskreytingu frá Módel og vatnslitamálverki af viðkomandi stofnun eftir Bjarna Þór Bjarnason:
Fjölbrautaskóli Vesturlands – Arnar Sigurgeirsson
Brekkubæjarskóli – Karítas Gissurardóttir
Grundaskóli – Vilborg Helgadóttir
Akrasel – Kolbrún Hlíf Guðmundsdóttir
Garðasel – Sonja Sveinsdóttir
Teigasel – Sigríður Ása Bjarnadóttir
Vallarsel – Hrefna Ingólfsdóttir
Frístundamiðstöð Þorpið – Ársæll Hrafn Erlingsson
Akraneskaupstaður sendir öllu starfsfólki leik-, grunn- og framhaldsskóla á Akranesi og frístundastarfi bæjarins hamingjuóskir með titillinn Skagamenn ársins 2021.
Þórður Guðnason var sá fyrsti sem var útnefndur Skagamaður ársins á Þorrablóti Skagamanna árið 2010.
2021: Starfsfólk leik – grunn – og framhaldsskóla og frístundastarfi.
2020: Heilbrigðisstarfsfólk HVE.
2019: Andrea Þ. Björnsdóttir.
2018: Bjarni Þór Bjarnason.
2017: Sigurður Elvar Þórólfsson.
2016: Dýrfinna Torfadóttir.
2015: Erna Guðnadóttir og Einar J. Ólafsson.
2014: Steinunn Sigurðardóttir.
2013: Ísólfur Haraldsson.
2012: Hilmar Sigvaldason.
2011: Haraldur Sturlaugsson.
2010: Þórður Guðnason.