Jón Þór Hauksson er í viðræðum við ÍA um að taka við þjálfun karlaliðs félagsins í efstu deild í knattspyrnu.
Eins og áður hefur komið fram er Jóhannes Karl Guðjónsson hættur sem þjálfari ÍA en hann réði sig til starfa í þjálfarateymi A-landsliðs karla hjá KSÍ.
Jón Þór er samningsbundinn Vestra á Ísafirði en hann tók við þjálfun liðsins um mitt tímabil í fyrra og náði góðum árangri með félagið.
Eggert Herbertsson formaður Knattspyrnufélags Akraness segir í samtali við fréttavefinn 433.is að Vestri hafi gefið ÍA leyfi til þess að ræða við Jón Þór og það verkefni sé í ferli.
Eins og áður segir náði Jón Þór Haukson fínum árangri með lið Vestra – sem fór alla leið í undanúrslit Mjólkurbikarkeppni KSÍ s.l. haust.
Liðið endaði í 5. sæti í næst efstu deild á síðasta tímabili undir hans stjórn.
Hann hefur þjálfað hjá ÍA um margra ára skeið – en hann var yfirþjálfari yngri flokka í mörg ár og stýrði meistaraflokksliði ÍA árið 2017 eftir að Gunnlaugur Jónsson lét af störfum.
Jón Þór var þjálfari A-landsliðs kvenna og kom liðinu í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fer í sumar. En áður en hann tók við landsliðsþjálfarastarfinu var hann aðstoðarþjálfari meistaraflokksliðs Stjörnunnar sem sigraði í Mjólkurbikarkeppni KSÍ árið 2018.