Þriðjudagurinn 22. febrúar 2022 verður eftirminnilegur hjá mörgum á Akranesi.
Þann dag ætla í það minnsta 9 pör að taka þátt í „drop in“ brúðkaupi í Akraneskirkju.
Þráinn Haraldsson, sóknarprestur í Garða – og Saurbæjarprestakalli, segir að hugmyndin hafi kviknað þegar söfnuður í Noregi auglýsti slíkan dag – og viðtökurnar á Akranesi eru góðar.
„Við höfum ekki framkvæmt þetta áður hér hjá okkur, en þetta hefur verið framkvæmt á nokkrum stöðum áður. Grafarvogskirkja hefur gert þetta áður hér á Íslandi og í Breiðholtskirkju ef ég man rétt. Hugmyndin kviknaði hjá okkur er við sáum söfnuð í Noregi auglýsa þennan dag, dagsetningin er náttúrulega svo flott,“ segir Sr. Þráinn Haraldsson við Skagafréttir.
Eins og áður segir eru viðtökurnar góðar, 9 pör skráð eins og er, enn þá nokkur pláss laus.
„Við erum með þessu að reyna að höfða til þeirra sem hafa kannski verið lengi saman, alltaf hugsað sér að gifta sig en aldrei orðið úr því, það eru margir sem vilja ekki tilstandið sem fylgir hefðbundu stóru brúðkaupi. Við erum svona að minna á það í leiðinni að brúðkaup í kirkju þarf ekki endilega að vera stórt, það getur verið lítið og einfalt. Aðalmálin er tryggðin sem fólk heitir hvort öðru og bæn og blessun Guðs sem er mikilvægasti þátturinn í kirkjulegu brúðkaupi,“ segir Þráinn Haraldsson, sóknarprestur.