Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sem er samningsbundinn sænska úrvalsdeildarliðinu Norrköping, hefur skrifað undir samning við ÍA út leiktíðina 2022.
Um er að ræða lánssamning og verður varnarmaðurinn efnilegi í herbúðum ÍA út keppnistímabilið í efstu deild karla sem hefst í apríl á þessu ári.
Oliver samdi við Norrköping í lok ársins 2018, á sama tíma og Ísak Bergmann Jóhannesson.
Oliver kom við sögu í einum leik með meistaraflokki ÍA á Íslandsótinu áður en hann fór í atvinnumennsku en hann lék upp allra yngri flokka með ÍA áður en hann fór til Svíþjóðar.
Oliver er fæddur árið 2002 en hann hefur leikið með yngri landsliðum Íslands.
Hann hefur glímt við erfið meiðsli á undanförnum misserum en er á batavegi. Skagamaðurinn snjalli ætlar að nota tímann á Akranesi til þess að byggja sig upp fyrir framtíðina og er góð viðbót við leikmannahóp ÍA.