Bára Daðadóttir, sem setið hefur í bæjarstjórn Akraness undanfarin fjögur ár mun ekki gefa kost á sér á lista Samfylkingarinnar í næstu kosningum sem fram fara í maí á þessu ári.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Bára sendi frá sér á fésbókarsíðu sinni. Bára skipaði þriðja sætið á lista Samfylkingarinnar í kosningunum 2018.
„Undanfarin fjögur ár hef ég setið í bæjarstjórn Akraness og verið formaður skóla-og frístundaráðs. Að hafa fengið tækifæri til þessara starfa eru forréttindi að mínu mati og ég er mjög þakklát fyrir það. Ég tel okkur hafa verið að vinna vel og að góðum verkefnum fyrir bæinn okkar.
Á þessu kjörtímabili hefur lífið líka verið mér mjög gjöfult og hef ég eignast tvær dásamlegar stúlkur, í janúar 2020 og nú í ágúst 2021 og stóru börnin mín eru á sjöunda og tíunda ári. Með góðum stuðningi, skipulagningu og sveigjanleika fólksins í kringum mig; fjölskyldu og samstarfsfólks (bæði í vinnunni, pólitíkinni og embættismanna) hefur þetta gengið upp og er ég öllum mjög mjög þakklát.
Ég hef verið að fá hvatningu til þess að bjóða mig fram aftur og þykir mér afar vænt um það.
Bæjarstjórnarstarfið er að mestu unnið síðdegis og á kvöldin. Tíma sem hentar alls ekki fjölskyldufólki en á kjörtímabilinu minnkaði ég líka starfshlutfallið mitt (svona þegar ég var ekki í fæðingarorlofi) til þess að ná að halda öllum boltunum mínum á lofti.
Ég hef því ákveðið að bjóða mig ekki aftur fram til starfa í bæjarstjórn þetta kjörtímabil og njóta seinnipartanna og kvöldanna með fjölskyldunni og minnka púsluspilið.“