Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkti í gær samhljóða að fordæma innrás Rússa í Úkraínu. Þetta kemur fram í bókun sem var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar í gær. Bókunin er með eftirfarandi hætti:
Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu og brot þeirra á sjálfstæði og sjálfræði þjóðarinnar. Bæjarstjórn lýsir yfir fullum stuðningi við úkraínsku þjóðina og lýsir sig jafnframt reiðubúna til móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Bæjarstjórn tekur einróma undir bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 25. febrúar síðastliðnum, sem og yfirlýsingu Evrópusamtaka sveitarfélaga sem bæjarfulltrúar hafa stutt með undirritun sinni.