Akraneskaupstaður mun á næstunni ganga frá samkomulagi um kaup á 10 íbúðum fyrir fatlað fólk. Ein af þessum íbúðum verður nýtt fyrir starfsmenn sem sinna þjónustu við íbúa í hinum 9 íbúðunum.
Bæjarstjórn Akraness samþykkti tillögu þess efnis á fundi sínum í gær en íbúðirnar eru í nýjum fjölbýlishúsum við Þjóðbraut 3 og 5.
Jafnframt var samþykkt að Akraneskaupstaður falli frá því að veita stofnframlag í Brynju Hússjóðs Örykjabandalagsins vegna íbúða að Þjóðbraut 3 og 5 þar sem að stjórn félagsins sér ekki fært að standavið fyrri áform sín.
Kaupverð hverrar íbúðar er 41,5 milljónir kr. eins og sjá má í skýringartexta hér fyrir neðan. Húsnæðissjálfseignarstofnun á landsbyggðinni, sem enn á eftir að setja á laggirnar, mun eiga 9 íbúðir og Akraneskaupstaður mun eiga eina af þessum 10 íbúðum.
Á fundinum var samþykkt að fela bæjarstjóra Akraness að ganga frá samkomulagi við Bestla Þróunarfélag, byggingaraðila Þjóðbrautar 3 og Þjóðbrautar 5, um kaup á samtals 10 íbúðum í mannvirkjunum, og að sækja um stofnframlag til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna 9 af þessum 10 íbúðum.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir eftirfarandi:
- Að veita bæjarstjóra heimid til að ganga frá samkomulagi við Bestla Þróunarfélag ehf./byggingaraðila mannvirkjanna að Þjóðbraut 3 og Þjóðbraut 5, um kaup á samtals 10 íbúðum í mannvirkjunum þar sem kaupverð hverrar íbúðar er 41,5 m.kr. eða samtals 415,0 m.kr. Skipting eignarhalds íbúðanna verði þannig að 9 íbúðir verði keyptar í nafni óstofnaðrar húsnæðissjálfseignarstofnunar á landsbyggðinni (9X41,5 m.kr. = 373.5 m.kr.) en 1 íbúð (41,5 m.kr. verði í eigu Akraneskaupstaðar (íbúð til afnota fyrir starfsmenn sem sinna þjónustu við íbúa hinna 9 íbúðanna).
- Að veita bæjarstjóra heimild til að sækja um stofnframlag til óstofnaðrar húsnæðissjálfseignarstofnunar á landsbyggðinni þar sem heildarstofnvirði umsóknar verði samtals 373,5 m.kr. og stofnframlag Akraneskaupstaðar verði samtals kr. 70.920.000 (12% stofnframlag að fjárhæð kr. 44.820.000 og 7% viðbótarframlag að fjárhæð kr. 26.100.000). Stofnframlagið er veitt með fyrirvara um samþykki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stofnframlag ríkisins, samtals að fjárhæð kr. 67.230.000, og gert er krafa um fulla endurgreiðslu stofnframlagsins (12% og 7%) til Akraneskaupstaðar.
- Heimild til skuldajöfnunar byggingarréttargjalda Besta Þróunarfélags ehf./uppbyggingaraðila mannvirkjanna að Þjóðbraut 3 og Þjóðbraut 5 þar sem miðað verði við byggingarvísitölu í desember 2021 sem var 159,3 stig.
- Að veita bæjarstjóra heimild og felur honum jafnframt að undirrita alla nauðsynlega löggerninga og skjöl i tengslum við framangreint.
- Að Akraneskaupstaður falli frá veitingu stofnframlags Akraneskaupstaðar til Brynju Hússjóðs Örykjabandalagsins að fjárhæð 65,0 m.kr. vegna sömu íbúða að Þjóðbraut 3 og Þjóðbraut 5 í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar frá stjórn félagsins um að það sjái sér ekki fært að standa við fyrri áform sín.