Það var mikið um dýrðir um liðna helgi þegar Evrópumeistaramótið í samkvæmisdönsum fór fram í ensku borginni Blackpool.
Þar náði hin 16 ára gamla Rósa Kristín Hafsteinsdóttir frá Akranesi frábærum árangri með dansfélaga sínum, Aroni Loga Hrannarssyni sem er 17 ára Hafnfirðingur.
Rósa Kristín og Aron Logi byrjuðu Evrópumeistaramótið með því að keppa í flokki 19 ára og yngri – en sú keppni fór fram á föstudaginn langa. Þar stóðu þau efst á verðlaunapalli með gullverðlaun og Evrópumeistaratitil.
Þau létu ekki þar við sitja þegar þau tóku þátt í U-21 árs flokknum sem fram fór laugardaginn 16. apríl. Þar lönduðu þau gullverðlaunum og eru þar með tvöfaldir Evrópumeistarar í samkvæmisdönsum 2022.