Myndasyrpa: ÍA enn taplaust í Bestu deild karla eftir jafntefli gegn Fram



ÍA og Fram gerðu jafntefli í kvöld í Bestu deild karla í knattspyrnu þegar liðin mættust á gervigrasvellinum í Safamýri í 3. umferð Íslandsmótsins. Fyrir leikinn var Fram án stiga eftir tvo tapleiki en ÍA var með einn sigur og eitt jafntefli eftir tvær fyrstu umferðirnar.

Heimavöllur Fram verður ekki í Safamýri mikið lengur en ný aðstaða félagsins í Úlfarsárdal verður vígð á allra næstu dögum. Aðeins 600 áhorfendur komast fyrir með góðu móti í Safamýrinni og var uppselt á leikinn. Stuðningsmenn ÍA héldu áfram frábærri byrjun á keppnistímabilinu og létu vel í sér heyra frá upphafi leiks.

Fram komst yfir með marki frá Guðmundir Magnússyni á 23. mínútu. Eyþór Aron Wöhler skoraði fyrir ÍA rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar hann ýtti boltanum yfir marklínuna eftir að Hlynur Sævar Jónsson hafði skallað boltann að marki Fram eftir hornspyrnu frá Kaj Leo í Bartalstovu. Framarar mótmæltu því að boltinn hefði farið yfir marklínu en eins og sjá má á myndum frá ljósmyndara Skagafrétta leikur enginn vafi á því að boltinn fór yfir marklínuna.

Í lið ÍA vantaði Oliver Stefánsson og Steinar Þorsteinsson, sem eru báðir frá vegna veikinda. Sóknarmaðurinn Viktor Jónsson er enn frá vegna meiðsla en skoski varnarmaðurinn Alex Davey var á varamannabekk ÍA eftir að hafa meiðst frekar illa í fyrsta leik ÍA gegn Stjörnunni.

Á lokakafla leiksins fékk ÍA nokkur tækifæri til þess að bæta við marki, Gísli Laxdal Unnarsson, skaut framhjá úr ágætu færi. Gísli fékk einnig ágætt færi í fyrri hálfleik en gott skot frá honum fór rétt framhjá.

Guðmundur Tyrfingsson, sem hafði komið inná sem varamaður, var einnig nálægt því að komast í frábært færi þegar skammt var til leiksloka – en fyrirgjöf frá Halli Flosasyni fór rétt framhjá Guðmundi, sem kom til ÍA um mitt sumar árið 2020 frá Selfossi.

Eins og áður segir voru nokkrir lykilmenn ÍA fjarverandi. Ungir og efnilegir leikmenn fengu því tækifæri og nýttu þeir það með ágætum.

Benedikt V. Warén og Brynjar Snær Pálsson komu báðir inn í byrjunarliðið – og Hlynur Sævar var áfram í byrjunarliðinu líkt og í síðasta leik.

Brynjar Snær og Hlynur Sævar eru Borgnesingar sem hafa leikið með ÍA undanfarin ár – og Benedikt er lánsmaður úr röðum Breiðabliks.

Breki Þór Hermannsson, sem er fæddur árið 2003, fékk tækifæri í fyrsta sinn með meistaraflokki í Íslandsmótsleik. Brek Þór gekk til liðs við ÍA í fyrra en hann lék áður með Víkingi úr Ólafsvík þegar hann var búsettur í Grundarfirði.

Smelltu hér fyrir myndasafnið á ljósmyndavef Skagafrétta – myndasafnið er í vinnslu.