Aðsend grein frá Kristínu Þórðardóttur:


Að gefnu tilefni, vegna sveitarstjórnarkosninganna þann 14. maí 2022.

Ég get ekki látið hjá sitja að skrifa um þá auðmýkingu og niðurlægingu sem fatlaðir og aðstandendur þeirra eru sífellt að verða fyrir af hendi sveitarstjórnamanna á Akranesi.

Af öllum þeim flokkum sem verið hafa við stjórn frá árinu 2012, þá var það sérlega slæmt í tíð Sjálfstæðiflokksins, sem í raun eyðilagði þá umgjörð um fatlaða sem búið var að byggja upp.

Í tíð Sjálfstæðisflokksins með forráðin í sveitarfélaginu, þá voru ráðnir inn einstaklingar af atvinnuleysisskrá til að sinna fötlunarþjónustu án þess að hafa til þess nokkra getu, áhuga eða reynslu og afleiðingarnar komu svo niður á aðstandendum sem þurftu að sinna því meðfram fullri vinnu að reyna að leiðrétta og draga úr þeim vandamálum sem komu upp vegna þessarar stefnu Sjálfstæðisflokksins að gera þetta sem allra ódýrast, og þar sinntu menn/konur engu, þótt kvartanir bærust úr öllum hornum frá aðstandendum.

Fötlunarþjónusta er viðkvæmur þjónustuflokkur og aldeilis ekki á hendi hvers sem er að sinna því. Afleiðingar þjónustuskortsins geta verið mis alvarlegar en þó oftast alvarlegar fyrir bæði fatlaða einstaklinginn og aðstandandann sem reynir stanslaust að laga það sem miður fer.

Óbeit sveitarstjórnarmanna á fötluðu fólki og aðstandendum þess er orðin svo útbreidd og inngróin að enginn lyftir litla fingri til að stöðva þá niðurlægingu og meðvirkni með henni, sem fatlaðir og aðstandendur þeirra verða ítrekað fyrir.

Það er ástæða fyrir því að það var meitlað í lög að sveitastjórnir hefðu skyldu til að sinna þessum málum, og það er líka meitlað í lög að þeim skuli sinnt í samráði við aðstandendur sem þekkja best til. Það var einfaldlega meitlað í lög vegna þess að það eru of margir vondir menn uppáklæddir og stífgreiddir á daginn, sem hugsa eingöngu um hagnað og glamúr og er hreinlega alveg sama þó sá fatlaði og aðstandendur þeirra þjáist daglega, það truflar hann ekki.

Það sem hreinlega kveikti í mér, eru eru skrif formanns bæjarstjórnar og útlistun á því tapi sem hann segir vera á fötlunarþjónustu.

Ég get bara ekki orða bundist!

Vita bæjarstjórnendur ekki hverjar eru lögbundnar grunnskyldur sveitarfélaga?

Útsvar og allar tekjur sveitarfélags eiga að standa undir þeim lögbundnu grunnskyldum.

Sveitarfélag getur ALDREI tapað á sínu lögbundna þjónustuhlutverki nema þeir geti sýnt framá að þeir hafi eingöngu sinnt því hlutverki og hafi samt ekki nægar tekjur til að skila ársreikningi á núlli.

Sveitarfélög geta hinsvegar sýnt fram á TAP af rekstri leikskóla, greiðslum til dagmamma, íþróttamannvirkja, innviðauppbygginga sem fara út fyrir það nauðsynlega, gæluverkefna, of háum launum stjórnenda og bæjarstjóra, óskynsömum innkaupum (t.d. á húsgögnum og innréttingum á leikskóla, bara svona sem dæmi) og öllu öðru sem sveitarfélag kaupir og framkvæmir sem ekki telst til lögbundinna grunnskyldna sveitarfélagsins.

Ég veit að forseti bæjarstjórnar hefur verið mataður á þessari framsetningu upplýsinga af sjálfstæðismönnum sem starfa á bæjarskrifstofunni og vilja honum ekkert endilega vel eða jafnvel koma höggi á hann með þessari framsetningu.

Að lokum biðla ég til þeirra bæjarbúa sem vilja leggja viðkvæmum hópum lið, hvort sem það eru aldraðir eða fatlaðir, að sjá til þess að sitjandi bæjarstjórn Samfylkingar og Framsóknar haldi meirihluta sínum svo þeim takist að breyta þessari þjónustu til hins betra.

Kristín Þórðardóttir – Aðstandandi fatlaðs manns á Akranesi.