Stórt tap gegn Blikum staðreynd hjá karlaliði ÍA í Bestu deildinni



Karlalið ÍA tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu í Bestu deild Íslandsmótsins þegar Breiðablik kom í heimsókn á Norðurálsvöllinn í dag. Leikurinn var nr. 1000 í röðinni hjá karlaliði ÍA í efstu deild frá upphafi og fer seint í sögubækurnar fyrir tilþrif og marktækifæri.

Fyrir leikinn hafði ÍA leikið þrjá leik í deildinni, unnið einn og gert tvö jafntefli. Breiðablik var með fullt hús stiga eða 9 stig eftir þrjár umferðir. Blikar sýndu styrk sinn gegn ÍA í dag og lönduðu 5-1 öruggum sigri og eru áfram í efsta sæti deildarinnar með 12 stig.

Kristinn Steindórsson skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins 3 mínútur og Ísak Snær Þorvaldsson, fyrrum leikmaður ÍA, kom Bliku í 2-0 á 7. mínútu. Ísak bætti við þriðja markinu á 25. mínútu og útlitið á þeim tíma var dökkt hjá ÍA.

Ísak Snær fullkomnaði þrennuna með marki á 65. mínútu og kom Blikum í 4-0.

Viktor Örn Margeirsson skoraði sjálfsmark hjá Blikum og minnkaði muninn í 4-1 á 77. mínútu. Anton Lúðvíksson skoraði fimmta mark gestaliðsins með þrumuskoti á 88. mínútu og þar við sat – lokatölur 5-1 fyrir Breiðablik.

Skagaliðið var langt frá sínu besta gegn sterku liði Breiðabliks. Margir leikmenn léku undir getu og ÍA átti í raun aldrei möguleika eftir að hafa fengið á sig 2 mörk á fyrstu 7 mínútum leiksins.

Næsti leikur liðsins er gegn er á útivelli gegn Valsmönnum miðvikudaginn 11. maí.

Myndasyrpa frá leik ÍA og Breiðabliks er í vinnslu – sjá hér: