Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Guðm. Ingþóri Guðjónssyni
Í ljósi umræðunnar síðustu daga um góða rekstrarniðurstöðu í ársreikningi Akraneskaupstaðar fyrir árið 2021 er rétt að koma eftirfarandi staðreyndum um rekstur bæjarsjóðs á framfæri við kjósendur á Akranesi.
Á kjörtímabilinu 2018-2022 hefur Sjálfstæðisflokkurinn ítrekað bent á sýnilegar staðreyndir sem blasa ef ársreikningar kjörtímabilsins eru skoðaðir.
- Á kjörtímabilinu hafa gjöld hækkað langt umfram tekjur. Örlítill bati var þó á árinu 2021. Þegar svo er komið þá er rekstur bæjarsjóðs ekki sjálbær.
- Rekstrarafkoma aðalsjóðs, fyrir fjármagnsliði, á kjörtímabilinu sem tekur á hefðbundinni starfsemi sveitarfélagsins og lýtur fyrst og fremst að lögbundinni starfsemi hefur þar af leiðandi verið neikvæð.
- Vöxtur tekna þá aðallega útsvars á árinu 2021 skilaði sér ekki í bættri afkomu heldur fór allur í aukin launaútgjöld og annan rekstrarkostnað Akraneskaupstaðar.
- Útsvarstekjur Akraneskaupstaðar hækka ekki í takt við fólksfjölgun á Akranesi sem gefur ákveðnar vísbendingar.
- EBITA framlegð hefur fallið verulega á kjörtímabilinu eða frá 11,6% 2017 niður í 4,4% á árinu 2021. Ákveðnum botni var þá náð árið 2020 en þá var hún 0,2%.
- Útgjöld velferðar- og mannréttindamála hafa aukist verulega á kjörtímabilinu, líkt og úttekt KPMG á rekstri Akraneskaupstaðar gaf til kynna. Þetta er áhyggjuefni og þarfnast frekari greiningar, úttektar og aðgerða.
- Uppsafnað rekstrartap Akraneskaupstaðar af málefnum fatlaða frá tilfærslu frá ríkinu til sveitarfélaga árið 2011 er 717 m.kr. Fjármagn frá ríkinu dugar því ekki fyrir þeirri þjónustu sem veitt er.
- Heimsfaraldurinn hafði ekki teljandi áhrif á rekstur bæjarsjóðs líkt og mörg önnur sveitarfélög sem treyst hafa á ferðaþjónustu. Helstu áhrif faraldsins á rekstur má sjá í auknum útgjöldum í velferðarmálum.
- Laun og launatengd gjöld Akraneskaupstaðar sem hlutfall af rekstrartekjum náðu nýjum hæðum á kjörtímabilinu og tróna nú á toppi íslenskra sveitarfélaga og nema nærri 70% án lífeyrisskuldbindinga. Hefur hlutfallið aukist úr 62% árið 2017 í tæp 70% 2021. Ef ekki verður gripið til aðgerða strax með markvissum aðgerðum og greiningu mun það hafa veruleg áhrif á reksturinn inn í framtíðina.
Það er ljóst að með allri þeirri nauðsynlegu innviða uppbyggingu sem fram undan er þá munu rekstrargjöld vaxa enn frekar þegar mannvirkin verða tekin í notkun og auka þar af leiðandi á þann vanda sem blasir við í rekstri bæjarsjóðs.
Af hverju er rekstrarniðurstaðan samt sem áður jákvæð? Svarið við þeirri spurningu er nokkuð einfalt. Treyst hefur verið á einskiptis tekjur, t.a.m. arðgreiðslur frá Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahöfnum sem og úthlutun lóða, til að ná fram jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Það eitt og sér er varasamt í rekstri sveitarfélaga því þessar tekjur geta brugðið til beggja vona. Rekstrarniðurstaða eftir fjármagnsliði gefa því ekki bestu sviðsmyndina af rekstri Akraneskaupstaður eins og rakið hefur verið hér að ofan.
Guðm. Ingþór Guðjónsson er frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi og skipar 3. sætið.