Knattspyrnulið Kára sigraði KFS í 3. deild karla á Íslandsmótinu í gær. Liðin áttust við í Akraneshöllinni og var leikurinn í 2. umferð Íslandsmótsins.
Lið KFS er úr Vestmannaeyjum en það er sameiginlegt lið Framherja og Smástundar.
Fylkir Jóhannsson kom Kára í 1-0 á 18. mínútu og Andri Júlíusson bætti vð öðru marki á 37. mínútu – en Andri hafði áður skotið yfir markið úr vítaspyrnu.
Skagamaðurinn Oskar Wasilewski leikmaður Kára var að leika sinn fyrsta leik eftir að hafa komið frá Aftureldingu – en varnarmaðurinn sterki fékk rautt spjald fyrir litlar sakir undir lok fyrri hálfleiks.
Leó Viðarsson leikmaður KFS fékk einnig rautt spjald í leiknum þegar hann fékk sitt annað gula spjald á 62. mínútu.
Axel Freyr Ívarsson gulltryggði sigur Kára með þriðja marki leiksins rétt fyrir leikslok.
Skagamaðurinn Ragnar Leósson kom einnig inn á hjá Kára í sínum fyrsta leik eftir að hafa komið sem lánsmaður frá Fjölni.
Kári er í þriðja sæti deildarinnar eftir 2 umferðir en liðið hefur gert jafntefli gegn Sindra á útivelli á Höfn í Hornafirði í 1. umferð.