Hákon Arnar og Ísak Bergmann í aðalhlutverki þegar FCK tryggði sér danska meistaratitilinn



Skagamennirnir Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson létu mikið að sér kveða á lokasprettinum í dönsku úrvalsdeildinni knattspyrnu með liði FC Köbenhavn. Liðið varð danskur meistari um liðna helgi þegar liðið tryggði sér titilinn með 3-0 sigri gegn AaB á þjóðarleikvangi Dana, Parken.

Hákon Arnar og Ísak Bergmann skoruðu báðir í leiknum – en metfjöld áhorfenda var á Parken eða rétt um 35.500 áhorfendur.

Hákon Arnar, sem kom til FCK árið 2019 frá ÍA, skoraði í tveimur síðustu leikum liðsins í deildinni og lauk sínu fyrsta tímabili í aðalliðinu með eftirminnilegum hætti. Hann var valinn í úrvalslið 32. umferðar.

Hákon Arnar lék fjóra leiki af alls 22 leikjum í deildarkeppninni þar sem hann skoraði eitt mark. Í úrslitakeppninni lék Hákon Arnar alls 7 leik af 10 og skoraði þrjú mörk.

Ísak Bergmann kom til FCK s.l. haust frá sænska liðinu Norrköping – og skoraði hann einnig fjögur mörk í deildarkeppninni á tímabilinu.

Ísak Bergmann skoraði í síðustu þremur leikjum liðsins en alls lék hann 16 leiki með FCK, þar af 6 í úrslitakeppni deildarinnar.

Skagamennirnir ungu og æskuvinirnir létu mikið að sér kveða á lokakafla mótsins. Þeir skoruðu fimm af sjö mörkum liðsins í þremur síðustu leikjum liðsins. FCK tryggði sér titilinn með góðum lokakafla þar sem liðið var í harðri baráttu við Midtjylland. FCK hafði ekki unnið titilinn í Danmörku í þrjú ár eða frá tímabilinu 2018-2019.