Hvalfjarðarsveit og Íþróttabandalag Akraness skrifuðu í gær undir samning sem tryggir að íbúar í Hvalfjarðarsveit eigi kost á að stunda hvers kyns starf sem fram fer innan Íþróttabandalagsins og aðildarfélaga þess, hvort sem um er að ræða íþrótta-, forvarna-, félagsstarf eða annað.
Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Hvalfjarðarsveitar.
Markmið Hvalfjarðarsveitar með samningnum er að styðja við öflugt íþrótta-, forvarna- og félagsstarf sem fram fer innan Íþróttabandalags Akraness, hjá aðildarfélögum þess, fyrir samfélagið í Hvalfjarðarsveit.
Auk samningsbundinna fjárhæða til Íþróttabandalagsins, sem bæði eru tengdar íbúafjölda sem og iðkendafjölda, býður Hvalfjarðarsveit foreldrum barna, frá fæðingu að 18 ára aldri, auk þess niðurgreiðslu íþrótta- og tómstundagjalda, hjá viðurkenndum félögum, í formi tómstundastyrks.
Styrkurinn er til þess ætlaður að stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþrótta- og tómstundastarfi og efla þar með enn frekar barna- og ungmennastarf.
Nánari upplýsingar um tómstundastyrkinn má finna hér fyrir neðan.
Í samningnum kemur frma að tómstundastyrkur barna í Hvalfjarðarsveit er 70.000 kr. á ári en til samanburðar er slíkur styrkur á Akranesi 35.000 kr.