Silvía, Arnheiður, Kristín Minney og Anna Leif sigursælar á NM í Garpasundi í Færeyjum



Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is eru fjórir keppendur frá Sundfélagi Akraness á meðal keppenda

Silvia Llorens Izaguirren, Arnheiður Hjörleifsdóttir, Kristín Minney Pétursdóttir og Anna Leif Elídóttir létu mikið að kveða á Norðurlandameistaramóti Garpa sem lauk í Þórshöfn í Færeyjum s.l. laugardag.

Alls tóku 150 keppendur þátt og 40 þeirra voru frá Íslandi. Í Garpaflokki eru keppendur á aldrinum 25-80 ára.

Eins og áður hefur komið fram náðu Skagakonurnar flottum árangri á fyrri keppnisdeginum. Þær slógu ekki slöku við á lokakeppnisdeginum.

Öll úrslit mótsins eru hér:

Í 4×50 metra boðsundi varð ÍA tvívegis í 2. sæti í sínum aldursflokki.

Arnheiður Hjörleifsdóttir varð önnur í 100 metra fjórsundi, hún varð þriðja í 100 metra baksundi, og þriðja í 50 metra baksundi, í flokki 45-49 ára. Hún fékk því alls tvenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun.

Kristín Minney sigraði í 100 metra bringusundi, 400 metra skriðsundi, 400 metra fjórsundi, 200 metra bringusundi, 100 metra fjórsundi, 100 metra skriðsundi og hún varð önnur í 50 metra bringusundi í flokki 40-44 ára. Hún fékk því alls sex gullverðlaun og ein silfurverðlaun.

Silvía Llorens sigraði í 800 metra skriðsundi og 100 metra flugsundi, hún varð önnur í 100 metra bringusundi, 400 metra skriðsundi og 100 metra skriðsundi, í flokki 40-44 ára. Hún fékk því tvenn gullverðlaun og þrenn silfurverðlaun.

Anna Leif Auðar Elídóttir varð önnur í 50 metra skriðsundi og 100 metra skriðsundi, í flokki 50-54 ára og fékk því tvenn silfurverðlaun.