„Hundur í óskilum“ blæs nýju lífi í gamlar hækjur og eldhúsáhöld á tónleikum í Vinaminni



Tveggja manna stórsveitin „Hundur í óskilum“ mun blása nýju lífi í gamlar hækjur og eldhúsáhöld, grauta í þjóðararfinum og særa fram nýjan hljóm úr gatslitnum ellismellum og eyrnaormum í bland við glænýtt stöff á tónleikum Kalman – listafélags sem fram fara í Vinaminni fimmtudaginn 27. október. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þeir félagar Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur Stephensen, hafa fyrir löngu skapað sér algera sérstöðu í íslensku menningarlífi með „Hundi í óskilum“. Ekki er alltaf gott að henda reiður á hvar í litrófi listanna beri að staðsetja gjörninga þeirra félaga, hvort hér er um að ræða tónleika, leikhús, uppistand, sirkus, ljóðakvöld eða hristing úr öllu þessu. Þeir félagar hafa á undanförnum árum slegið í gegn með hverri leiksýningunni á fætur annarri, bæði norðan og sunnan heiða og hafa nú aftur tekið upp þráðinn með sýna fjórðu sýningu, Njálu á hundavaði, þar sem þeir skildu við hana fyrir fullu Borgarleikhúsi í fyrra vor.

Aðgangseyrir er kr. 3.500 og kr. 3.000 fyrir félaga í Kalman listafélagi.

Kalman listafélag er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.