Brynhildur Björnsdóttir og Guðmundur Sigurbjörnsson fengu viðurkenningu frá Akraneskaupstað fyrir lóð sína að Bakkatúni 4 við setningu Vökudaga í Tónbergi þann 27. október s.l.
Akraneskaupstaður hefur á undanförnum árum veitt viðurkenningar í þágu umhverfisvitundar, hvernig fólk skynjar umhverfi sitt og hefur áhrif á snyrtingu og fegrun þess.
Í tilkynningu frá Akraneskaupstað kemur fram að Brynhildur og Guðmundur eru fyrirmyndir annarra varðandi atriði sem skipta máli í uppbyggingu og framtíðarmynd bæjarins.
Lóðin er á sögulegum stað á horni Vesturgötu og Bakkatúns, búið er að opna fyrir sýn inn á lóðina sem nýtur sín vel séð frá götunni. Lóðin er vel hirt og snyrtileg, með fallegri aðkomu og forgarði við innkeyrslu. Fjölbreyttur gróður er í henni miðað við erfiðar ræktunaraðstæður á Neðri Skaga. Lóð og umhverfi til fyrirmyndar.