Eyþór og Bryndís kjörin bestu leikmennirnir – Haukur og Sunna efnilegust



Knattspyrnufélag ÍA hélt lokahóf s.l. laugardag þar sem að veittar voru ýmsar viðurkenningar.

Karlalið félagsins náði ekki að halda sæti sínu í Bestu deildinni og leikur í næst efstu deild á næsta tímabili, Lengjudeildinni.

Kvennalið félagsins var í baráttu um að komast upp úr 2. deild Íslandsmótsins sem er þriðja efsta deild.

Í meistaraflokki kvenna var Bryndís Rún Þórólfsdóttir valin besti leikmaður og hin 14 ára Sunna Rún Sigurðardóttir var valin efnilegasti leikmaður liðsins. Þess má geta að þær eru systradætur.

Í meistaraflokki karla var Eyþór Aron Wöhler valinn besti leikmaðurinn en hann var markahæsti leikmaður ÍA með 9 mörk.

Haukur Andri Haraldsson var valinn efnilegasti leikmaðurinn í meistaraflokki karla en hann er 17 ára. Eyþór Aron er á förum frá ÍA en hann hefur samið við Íslandsmeistaralið Breiðabliks.